Lífið

Guðjón Davíð verður Ormur Óðinsson í Gauragangi

Þau Hallgrímur Ólafsson, Guðjón Davíð Karlsson og Ilmur Kristjánsdóttir verða þríeykið fræga í Gauragangi. Guðjón Davíð verður unglingahetjan Ormur Óðinsson en verkið er sett uppí Borgarleikhúsinu og verður frumsýnt í mars.
Þau Hallgrímur Ólafsson, Guðjón Davíð Karlsson og Ilmur Kristjánsdóttir verða þríeykið fræga í Gauragangi. Guðjón Davíð verður unglingahetjan Ormur Óðinsson en verkið er sett uppí Borgarleikhúsinu og verður frumsýnt í mars.

„Við erum búin að mynda þetta fræga þríeyki í Gauragangi, Guðjón Davíð Karlsson, Gói, verður Ormur Óðinsson og honum til halds og traust verða þau Hallgrímur Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir,“ segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins.

Eins og fram kom í fjölmiðlum fyrir skemmstu verður Gauragangur, byggt á samnefndri unglingabók Ólafs Hauks Símonarsonar, sett upp í mars á næsta ári. Verkið verður þá búið að liggja í dvala í sautján ár eða alveg síðan að þau Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson og Ólafía Hrönn sprönguðu um á fjölum Þjóðleikhússins undir taktföstum tónum Ný Danskrar í afar vinsælli uppfærslu.

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona

Sautján ár eru langur tími í unglingamenningu, nýverið var meðal annars haldið uppá fimmtán ára afmæli GSM-sambands á Íslandi, tækni sem skiptir miklu máli fyrir framtíð landsins um þessar mundir og svo má ekki gleyma Fésbókaræðinu og MSN-samskiptaforritinu. „Þetta mun tala til ungs fólks í dag en ég efast um að það verði fullt af fésbókartilvitnunum. Ungt fólk er í grunninn það sama og það var fyrir fimmtán og þrjátíu árum síðan. Þetta er þroskasaga Orms Óðinssonar, átök hans við eldri kynslóðina og ástina,“ segir Magnús.

Og þótt það sé Gauragangi eiginlega óviðkomandi þá hafa átt sér stað töluverðar tilfærslur milli leikhúsanna tveggja í höfuðborginni að undanförnu. Fjöldi leikara hefur flutt sig um set og hafið störf innan veggja Leikfélags Reykjavíkur. Nægir þar að nefna Hilmi Snæ, Rúnar Frey, áðurnefnda Ilmi, Jörund Ragnarsson og spúsu hans, Dóru Jóhannesdóttur. Að ógleymdri Nínu Dögg Fillipusdóttur. Þá hefur Unnur Ösp Stefánsdóttir fengið fastan samning við leikhúsið eftir að hafa verið áberandi á síðasta ári.

Samanburður við Real Madrid, spænska knattspyrnufélagið sem sankað hefur að sér stórstjörnum í ár, er einhvern veginn óhjákvæmilegur. Magnús hlær að þessari samlíkingu en segir, í fullri alvöru, að það hafi alltaf verið meginmarkmið hjá honum að horfa fram á veginn og styrkja leikarahópinn. Hvort slíkt sé ekki aðeins auðveldara nú, þegar eilítil óvissa ríkir um hver muni setjast í stól Þjóðleikhússtjóra, verður Magnús ögn alvarlegri í svörum. „Við lögðum nýja stefnu í Borgarleikhúsinu í fyrra og starfsmannahópurinn hefur verið að styrkjast mikið síðan þá. Og leikárið sem nú er að hefjast er eðlilegt framhald af því og það skiptir okkur engu máli hvort það sé ólga í kringum Þjóðleikhúsið eður ei.“ freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.