Erlent

Verkmannaflokkurinn og Hægriflokkurinn bættu mest við sig

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jens Stoltenberg forsætisráðherra má vera sáttur við sinn flokk, Verkamannaflokkinn.
Jens Stoltenberg forsætisráðherra má vera sáttur við sinn flokk, Verkamannaflokkinn.

Þriggja flokka samsteypustjórn Noregs hélt velli eftir að kosningum til Stórþingsins lauk í gær en ekki mátti þó miklu muna.

Verkamannaflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, sem saman mynda ríkisstjórn Noregs, stóðu uppi með 86 þingsæti þegar öll kurl voru komin til grafar í gærkvöldi en stjórnarandstöðuflokkarnir fengu 83 sæti.

Það voru Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, sem óumdeilanlega voru sigurvegarar kosninganna með 64 þingsæti og 31. Hægriflokkurinn bætir þannig við sig einum átta þingsætum en Verkamannaflokkurinn þremur. Góðu gengi sínu má Hægriflokkurinn að stórum hluta þakka leiðtoga sínum, Ernu Solberg, sem gekk hart fram í kosningabaráttunni og vann hug og hjörtu kjósenda á lokasprettinum.

Vinstriflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, kom hins vegar allra flokka verst út úr kosningunum og tapaði átta af tíu þingsætum sínum enda tilkynnti formaðurinn Lars Sponheim um afsögn sína þegar að lokinni talningu atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×