Innlent

Margt sem kemur hruninu ekkert við

Páll Hreinsson
„Við notum allar þær upplýsingar sem við þurfum.“
Páll Hreinsson „Við notum allar þær upplýsingar sem við þurfum.“
„Við höfum safnað saman gríðarlega miklu magni af gögnum úr bönkunum og vinnum úr þeim niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Stór hluti hennar er upplýsingar sem háðar eru bankaleynd eða þagnarskyldu."

Þetta segir Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök falls bankanna.

Í nýju frumvarpi forsætisnefndar Alþingis til breytinga á lögum um rannsóknina og meðferð gagna sem verða til við störf nefndarinnar er kveðið á um vörslu Þjóðskjalasafnsins á þeim gagnabönkum sem geyma upplýsingar sem á hvílir þagnarskylda í áttatíu ár, samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.

Hefur sú ráðstöfun sætt gagnrýni og vakið ótta um að mikilvægum upplýsingum verði leynt.

„Við notum allar þær upplýsingar sem við þurfum til að útskýra hver var aðdragandinn og meginorsakir fyrir falli bankanna. Í þessum tölvukerfum er fullt af upplýsingum sem koma því ekkert við," segir Páll.

Í lögum um rannsóknarnefndina er fyrrgreindum ákvæðum upplýsingalaga vikið til hliðar. Í þeim segir að nefndin geti birt upplýsingar, sem annars væru háðar þagnarskyldu, telji hún slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Hún skuli þó aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni fólks, þar með talið fjármál þess, að almannahagsmunir vegi þyngra en hagsmunir þess sem í hlut á.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×