Erlent

C-vítamín gagnslaust við kvefi

Óli Tynes skrifar

Þýsk stofnun sem fylgist með gæðum og virkni í heilbrigðismálum hefur komist að þeirri niðurstöðu að C-vítamín veiti ekki vernd gegn kvefi.

Stofnunin IQWiG, hefur samkvæmt norska blaðinu Aftenposten yfirfarið rannsóknir sem Cochrane Collaboration gerði í Bretlandi þar sem yfir ellefu þúsund manns tóku þátt.

Þáttakendur sem byrjuðu að taka stóra skammta af C-vítamíni um leið og þeir fundu fyrir kvefi urðu hvorki minna veikir né batnaði fyrr en þáttakendur sem fengu lyfleysur sem innihéldu ekkert vítamín.

Þýska stofnunin varar því fólk við að bryðja C-vítamín í stórum skömmtum og bendir á að ráðlagður dagskammtur er aðeins 0.1 gramm.

Þrátt fyrir það eru seldar miklu sterkari pillur í apótekum og verslunum. Pillur sem eru svo sterkar að líkaminn megnar ekki að taka þær upp.

Þessi dýra heilsubót fer því einfaldlega niður klósettskálina þegar líkaminn losar sig við hana eftir náttúrulegum leiðum.

Stórir skammtar af C-Vítamíni geta einnig valdið niðurgangi sérstaklega í börnum og eldra fólki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×