Innlent

Fleiri viðhaldsverkefni nú en smærri en á síðasta ári

Viðhald Framkvæmdum hefur fjölgað, miðað við tölur frá Ríkisskattstjóra, en eru smærri í sniðum.Fréttablaðið/stefán
Viðhald Framkvæmdum hefur fjölgað, miðað við tölur frá Ríkisskattstjóra, en eru smærri í sniðum.Fréttablaðið/stefán

Eftir að stjórnvöld réðust í átak á vormánuðum til að auðvelda framkvæmdir og viðhald á íbúðarhúsnæði og skapa þannig störf fyrir iðnaðarmenn hafa Íslendingar ráðist í töluvert fleiri framkvæmdir á heimilum sínum en í fyrra, en samt varið til þeirra mun minni fjármunum. Þetta er meðal þess sem ráða má af tölum frá Ríkisskattstjóra um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna framkvæmda og viðhalds.

Meðal aðgerðanna sem ráðist var í og tóku gildi 1. mars síðastliðinn var að endurgreiðslur virðisaukaskatts af aðkeyptri vinnu við nýframkvæmdir og viðhald jukust úr 60 prósentum í hundrað prósent.

Á tímabilinu frá mars til október á þessu ári voru tæplega 1.234 milljónir endurgreiddar af virðisaukaskatti af ríflega sjö þúsund framkvæmdum á heimilum fyrir samtals 5.035 milljónir króna. Á sama tímabili í fyrra var skattur endurgreiddur af vinnu við öllu færri verkefni, eða 5.134. Heildarupphæðin sem varið var í þá vinnu var 6.930 milljónir og endurgreiðslurnar námu 1.018 milljónum.

Rétt er að taka fram að endurgreiðslurnar tóku nokkurn kipp í nóvember og desember í fyrra, sem er utan þessa samanburðartímabils, og námu rúmum þriðjungi allra endurgreiðslna það árið. Jón Guðmundsson hjá Ríkisskattstjóra segir að það gæti skýrst af því að fólk hafi í miklum mæli skilað gögnum inn til skattsins seint á síðasta ári þegar tók að sverfa að vegna kreppunnar.

Einnig var ákveðið að endurgreiða virðisaukaskatt af framkvæmdum sveitarfélaga í fyrsta sinn og námu endurgreiðslurnar samtals 266 milljónum, þar af 207 vegna nýbygginga.

Hrun er í endurgreiðslum til verktakanna sjálfra og námu þær á tímabilinu einungis ríflega þriðjungi af því sem var á sama tíma í fyrra, eða ríflega 560 milljónum miðað við 1.455 í fyrra. Árni Jóhannesson hjá Samtökum iðnaðarins segir það ríma fullkomlega við aðrar upplýsingar um samdrátt á byggingamarkaði.

Önnur aðgerð sem stjórnvöld gripu til var að rýmka reglur Íbúðalánasjóðs (ÍLS) til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri ÍLS, segist ekki hafa tölur um slík lán á takteinum en að lánunum hafi ábyggilega fjölgað eitthvað. Þá hafi reglur um viðhalds- og endurbótalán til lögaðila, til dæmis sveitarfélaga og félaga sem reka leiguhúsnæði, verið rýmkaðar töluvert. Félagsbústaðir í Reykjavík hafi einkum nýtt sér það til endurbóta á gömlu húsnæði við Skúlagötu.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×