Innlent

Flugbjörgunarsveitin leitar að ljótasta jólatrénu

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur hafið leitina að ljótasta jólatré landsins. Sá er hýsir ljótasta tréð mun hljóta veglegan flugeldapakka að gjöf frá Flugbjörgunarsveitinni.

„Stundum verða trén sem virtust vera svo fín út í skógi að einhverri hörmung þegar heim í stofu er komið, greinar brotnar af, trénu rústað af nýja hvolpinum, skreytingin misheppnuð eða tréð bráðkvatt með tilheyrandi barrfelli og þunglyndum greinum. Nú eða það bara voru engir peningar fyrir jólatré og því var búið til frumlegt tré úr afgöngum og góðum vilja," segir í tilkynningu frá sveitinni og bætt við að engin ástæða sé til þess að láta afspyrnu illa heppnað jólatré eyðileggja alla hátíðisdagana.

Þeir sem vilja vera með þurfa að hafa eftirfarandi í huga:

1. Þú póstar mynd af jólatrénu á Facebook grúppuna.

2. Jólatréð verður að vera þitt eigið.

3. Jólatréð verður að vera það tré sem þú varst með sem jólatré á jólunum, en ekki einhver hörmung sem þú hentir upp bara fyrir keppnina.

4. Jólatréð þarf ekki að vera úr tré.

5. Síðan getur fólk kosið. Hver og einn fær aðeins eitt atkvæði til að kjósa.

6. Þú kýst með því að skrifa "ojjj" í komment undir myndinni af því tré sem þér finnst ljótast.

7. Skilafrestur til að senda inn mynd af trénu þínu er til kl. 12 á hádegi 30. desember.

8. Síðasti möguleikinn til þess að kjósa er kl. 12 á hádegi 31. desember.

9. Eigandi þess trés sem verður með flest atkvæði 31. desember kl. 12 á hádegi hlýtur í sárabætur Trölla, stærsta flugeldapakka björgunarsveitanna að andvirði 21.900 og kappatertuna Hallgerði Langbrók að andvirði 8.900!

„Megi stærsta tréð vinna!," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×