Lífið

Les textann við Reyndu aftur

Leikarinn les upp textann við lagið Reyndu aftur á nýrri plötu Buffsins með lögum Magga Eiríks.
fréttablaðið/hörður
Leikarinn les upp textann við lagið Reyndu aftur á nýrri plötu Buffsins með lögum Magga Eiríks. fréttablaðið/hörður
„Þetta var alveg rosalega gaman,“ segir leikarinn Ingvar E. Sigurðsson sem les upp textann við slagarann Reyndu aftur á væntanlegri plötu Buffsins með lögum Magga Eiríks. „Ég gerði nokkrar útgáfur af þessu, bæði án undirleiks og síðan með undirleik. Ég veit ekki hvað verður notað,“ segir Ingvar, sem er mikill aðdáandi Magga Eiríks. „Maður ólst upp við tónlistina hans. Hún dundi í útvarpinu þegar maður var lítill og maður er undir áhrifum frá þessum mikla snillingi.“

Þótt Ingvar sé á meðal færustu leikara þjóðarinnar hefur hann einnig getið sér gott orð sem söngvari í hinum ýmsu söngleikjum. Hann segist hafa íhugað að bresta í söng í lok lestrarins en hætt við á síðustu stundu. „Þó ég segi sjálfur frá þá er ég alveg prýðilegur söngvari, enda sungið í nokkrum söngleikjum og stundum troðið upp en ég er ekkert að stela sviðsljósinu frá Buffinu,“ segir hann og hlær.

Hannes Friðbjarnarson úr Buffinu segir að Maggi Eiríks sé aðdáandi Ingvars og því hafi verið haft samband við hann. „Þetta kemur skemmtilega út og platan í heild sinni er bara frábær,“ segir Hannes. Reyndu aftur er eitt vinsælasta lag Magga Eiríks og því ákvað Buffið að gera einnig hefðbundna útgáfu af því. „Við tímdum ekki að hafa lagið bara svona. Við tökum það líka sjálfir þannig að það kemur tvisvar fyrir á plötunni.“

Platan kemur út 10. október, eða sama dag og ævisaga Magga Eiríks, Reyndu aftur, sem Tómas Hermannsson hjá Sögum ritar. Á útgáfudaginn verða haldnir stórtónleikar í KA-heimilinu á Akureyri þar sem fram koma Mannakorn ásamt Ellen Kristjánsdóttur og Buffinu. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.