Innlent

Segir Breta og Hollendinga ekki krefjast lengri ríkisábyrgðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir ekki endilega verið að krefjast ríkisábyrgðar. Mynd/ Pjetur.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir ekki endilega verið að krefjast ríkisábyrgðar. Mynd/ Pjetur.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segist ekki skilja viðbrögð Breta og Hollendinga við Icesave fyrirvörum Alþingis þannig að þjóðirnar vilji að ríkisábyrgðin verði lengd til ársins 2030 eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Utanríkismálanefnd ræddi málið á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í morgun.

„Ríkisábyrgðin er bundin til ársins 2024 og eftir því sem ég skil málið, þá er ekki verið að fara fram á að lögunum verði breytt," segir Árni Þór í samtali við Vísi og vísar þar í lög um ríkisábyrgð sem Alþingi samþykkti í lok síðasta mánaðar.

„Það sem er óljóst í málinu er að það segir í lögunum að ef svo fer að eitthvað kunni að vera ógreitt 2024 þegar ríkisábyrgðinni lýkur að þá eigi aðilar að setjast niður og semja um meðferð þess. Þeir eru að leggja til ákveðna meðferð á því máli sem lögin beinlínis segja til um að skuli semja um á milli aðila ef svo fer að það kunni að vera eitthvað ógreitt á þessum tímapunkti," segir Árni.

Árni segir að Bretar og Hollendingar séu að bregðast við þessu með óformlegum hætti og velti fyrir sér hvort hægt verði að leysa málið með því að lengja hugsanlega í láninu. „En það þarf ekkert endilega að hafa áhrif á ríkisábyrgðina," segir Árni Þór. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið og vísaði á ráðherrana til frekari útskýringa. „En eins og ég skil þetta þá er þetta svona," segir Árni Þór að lokum




Tengdar fréttir

Utanríkismálanefnd fundar um viðbrögð Breta og Hollendinga

Utanríkismálanefnd Alþingis kom saman til fundar klukkan átta í morgun og er eina dagskrárefnið viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis við ríkisábyrgð á Icesave samkomulaginu. Eins og komið hefur fram, meðal annars í Fréttablaðinu í morgun, krefjast þjóðrinar þess að ríkisábyrgðin gildi til ársins 2030 í stað ársins 2024 eins og áður var gert ráð fyrir og jafnvel að hægt verði að framlengja hana til ársins 2040. Efnahags- og skattanefnd Alþingis mun funda um málið klukkan tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×