Lífið

Kynlíf og slagsmál í ævisögu Gylfa Ægis

ósérhlífinn Sólmundur segir Gylfa ekki hræddan við að segja sögur af sjálfum sér.
ósérhlífinn Sólmundur segir Gylfa ekki hræddan við að segja sögur af sjálfum sér.

„Með fullri virðingu fyrir öðru fólki, þá held ég að enginn hafi upplifað eins litríka ævi - þó svo að margir hafi gert margt merkilegt. Eða fyndna ævi! Við skulum segja það frekar," segir Sólmundur Hólm, blaðamaður og skemmtikraftur.

Sólmundur hefur lokið við handrit að ævisögu Gylfa Ægissonar og skrifaði á miðvikudag undir útgáfusamning við Senu. Bókin kallast Sjúddírarírei og kemur út í byrjun nóvember.

Sólmundur segir mikil gæði í sögum Gylfa og að ótrúlegustu menn dúkki upp. „Lélegustu sögurnar hans eru betri en bestu sögurnar úr mínu lífi," segir hann með lotningu. „Það sem einkennir karlinn er að hann er ekkert spéhræddur. Hann segir frá hlutum sem ég myndi aldrei segja frá hefði ég lent í þeim."

Spurður hvort ævisaga Gylfa sverji sig í ætt við svokallaðar rokkævisögur, sem einkennast af hinu fornkveðna: „Sex, drugs and Rock n' Roll" segist Sólmundur lofa öllu nema dópinu. „Ég get lofað sexi, miklu víni, spíra og rokk og róli. Þetta er grjóthart, það er verið að berja menn og allt mögulegt."

Sena verður áberandi í jólabókaflóðinu í ár, en útgáfan hefur hingað til einbeitt sér að útgáfu tónlistar. Bók um valið á 100 bestu plötum Íslandssögunnar er á teikniborðinu, en sérfræðingar úr ýmsum áttum tóku listann saman í sumar. Blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen og tónlistarsérfræðingurinn Jónatan Garðarsson fjalla um allar plöturnar á listanum og sá síðarnefndi rýnir í niðurstöðurnar.

Loks gefur Sena út ævisögu Villa Vill, en Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson sé á síðustu metrunum með að ljúka henni. - afb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.