Lífið

Svíar hrifnir af Árstíðum

Hljómsveitin Árstíðir ætlar í tónleikaferð til Skandinavíu næsta vor.mynd/óskar páll elfarsson
Hljómsveitin Árstíðir ætlar í tónleikaferð til Skandinavíu næsta vor.mynd/óskar páll elfarsson

„Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu,“ segir Ragnar Ólafsson úr hljómsveitinni Árstíðum. Henni hefur verið boðið að spila í Svíþjóð og á norsku tónlistarhátíðinni By:Larm næsta vor. Boðið kom eftir góða frammistöðu á tónleikum í Fríkirkjunni í síðustu viku þar sem sænskir útgefendur voru á meðal gesta. „Eftir tónleikana króuðu Svíarnir mig af og voru að ræða plön um að fá okkur til Skandinavíu. Það stendur til að fara þangað í vor,“ segir Ragnar. Á By:Larm koma einnig fram íslensku sveitirnar Hjaltalín og Retro Stefson ásamt tónlistarmanninum Ólafi Arnalds.

Hugsanlegt er að Árstíðum verði í framhaldinu boðinn útgáfusamningur af sænsku fyrirtæki, en eitt þeirra sem hafa komið að máli við sveitina er Sony Music í Svíþjóð. „Þess má til gamans geta að við erum með lag í bígerð sem er bæði með íslenskum og sænskum texta. Það er skemmtileg tilviljun að Svíarnir skuli sýna okkur áhuga,“ segir Ragnar, sem talar reiprennandi sænsku eftir að hafa búið í Svíþjóð.

Tónlist Árstíða er þjóðlagaskotin og er undir áhrifum frá flytjendum á borð við Neil Young, Eagles og CSN. Hún gaf út sína fyrstu plötu í sumar og hefur hún fengið góðar viðtökur. Fram undan hjá hljómsveitinni eru tónleikar á Októberfest á lóð Háskóla Íslands í næstu viku og á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves um miðjan október. Fyrir jólin spilar sveitin síðan á hinum árlegu jólatónleikum Björgvins Halldórssonar í Laugardalshöll.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.