Lífið

Fjölbreytt á Grand rokk

Fjölmennur útidúr Diskó, ska, balkanskagasveifla og rokk – í sama laginu.
Fjölmennur útidúr Diskó, ska, balkanskagasveifla og rokk – í sama laginu.

„Við Gunnar gítarleikari og Rakel söngkona vorum í Kvennó,“ segir Kristinn Roach, píanóleikari hljómsveitarinnar Útidúrs. „Við hringdum svo bara í alla sem við þekkjum til að bæta í hljómsveitina og núna erum við tólf í henni.“

Já, það er af sem áður var – ekkert gítar, bassi og trommur dæmi lengur.

Það er spurning hvort öll hljómsveitin kemst fyrir á sviðinu á Grand rokk en þar spilar Útidúr ásamt hljómsveitinni Miri og rapp­trúbadornum Helga Val í kvöld. Fjögur lög má heyra með sveitinni á Myspace-síðunni hennar.

„Við reynum nú bara að vera eins fjölbreytt og við getum og erum oft með alls konar fíling í sama laginu,“ segir Kristinn og lýgur því ekki.

„Stefnan er að taka upp fleiri lög og gefa eitthvað út og spila sem mest. Við höfum verið dugleg upp á síðkastið og fram undan eru Réttir og líklega Airwaves.“ Fastir liðir, sem sé.

Austfirski kvartettinn Miri mun vera í bullandi stuði þessa dagana, enda er hann að taka upp sína fyrstu breiðskífu í samvinnu við Curver. Önnur plata rapp­trúbadorsins Helga Vals, The Black Man Is God, the White Man Is the Devil, er nýkomin út. Teitið hefst um klukkan 22 og það er frítt inn.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.