Innlent

Geir biður ekki um aukna vernd

Forsætisráðherra ætlar ekki að óska eftir aukinni vernd eftir að mótmælendur veittust að honum í gær.

Hópur fólks tók sér stöðu fyrir framan inngang Alþingishússins í gærmorgun og reyndi að varna ráðherrum inngöngu í húsið. Til nokkurra stimpinga kom þegar að reynt var að koma í veg fyrir að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kæmust inn. Það vakti nokkra athygli að einn mótmælendanna komst upp að forsætisráðherra án þess að lögreglan skakkaði leikinn.

Geir H. Haarde vildi lítið tjá sig um atvikið í dag. Fyrir áramótin sáust nokkrum sinnum óeinkennisklæddir lögreglumenn í fylgd með honum. Hann segir að í höndum lögreglunnar hvernig slíkri gæslu sé háttað og hvenær hún sé nýtt. Hann vilji ekki tjá sig um þessi öryggismál. Hann ætli sér ekki að óska eftir aukinni vernd lögreglu. Íslendingar séu vanir að fara frjálsir ferða sinna og hann voni að allir virði rétt hvers annars til að eiga frjálsa för um landið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×