Innlent

Ekki fallegt yfirbragð á Icesave-umræðum

Hart var tekist á við upphaf þingfundar í gær um þá ákvörðun stjórnarmeirihlutans að efna enn á ný til kvöldfundar um Icesave.  fréttablaðið/anton
Hart var tekist á við upphaf þingfundar í gær um þá ákvörðun stjórnarmeirihlutans að efna enn á ný til kvöldfundar um Icesave. fréttablaðið/anton
Telji stjórnin sig ekki geta náð betri samningi um Icesave á að leyfa henni að bera ábyrgð á því og taka fyrir næsta mál. Mörg önnur mál þarf að ræða. Yfirbragðið á þeirri pólitík sem er ástunduð á Alþingi þessa dagana, þar sem málþófið er þaulskipulagt, er ekki fallegt.

Þetta er skoðun Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns Framsóknar, á stundatöflu stjórnarandstöðunnar sem sagt var frá í blaðinu í gær. „Ég tek ekki þátt í þessu. Ég hyggst greiða atkvæði á móti Icesave-samningnum og hef lýst þeirri afstöðu minni og rökstutt í ræðu, en ég hef aldrei verið á leiðinni á neina stundaskrá um það að tala um þetta mál," segir hann.

Guðmundur telur mikilvægara að taka önnur mál á dagskrá og hefur aldrei verið hrifinn af málþófi.

„Ég tel eðlilegast að menn eigist við með rökum og setji þau skýrt fram með innihaldi en ekki magni. Mál eiga að geta haft sinn framgang og um þau greidd atkvæði. Mér finnst yfirbragðið á þessari pólitík ekkert sérstaklega fallegt og þess vegna finn ég mig engan veginn í þessu og tek ekki þátt í þessu," segir hann.

Nú séu gríðarlega mörg verkefni sem þurfi að taka ákvarðanir um.

„Einhvern tíma vil ég fá að ýta á bjölluhnappinn og láta afstöðu mína í ljós. Þá láta hinir sína afstöðu í ljós líka. Þannig virkar lýðræðið," segir Guðmundur og telur mikilvægt að almenningur viti að ekki allir stjórnarandstöðuþingmenn taki þátt í málþófinu: „Ég er ekki mikið fyrir svona vinnubrögð á þingi," segir hann.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×