Lífið

Næturlífið færist vestur fyrir læk

Bakkus. Skemmtistaðurinn Bakkus var opnaður um miðjan júlí og hefur fyllt það skarð sem skemmtistaðurinn Sirkus skildi eftir sig. Fréttablaðið/pjetur
Bakkus. Skemmtistaðurinn Bakkus var opnaður um miðjan júlí og hefur fyllt það skarð sem skemmtistaðurinn Sirkus skildi eftir sig. Fréttablaðið/pjetur

Heitustu skemmtistaðirnir eru nú flestir fyrir vestan Lækjargötu. Þessi þróun hefur átt sér stað á skömmum tíma en er í raun afturhvarf til þess sem áður var. Fréttablaðið kannaði málið.

Fyrir aldamótin síðustu blómstraði skemmtanalífið í kringum Austurstræti og Hafnarstræti og borgarbúar sóttu skemmtistaði á borð við Gauk á Stöng, Tunglið, Wunderbar, Skuggabar, Thomsen og Kaffi Gróf. Nokkrum árum seinna voru skemmtistaðirnir fluttir á Laugaveginn og fáir skemmtu sér „hinum megin við læk“. Nú virðist sem skemmtanalíf hafi færst aftur í æðar Austurstrætis með tilkomu nýrra skemmtistaða.

Á síðastliðnum mánuðum hafa æ fleiri skemmtistaðir litið dagsins ljós í kringum Austurstræti og má þar nefna Bakkus, Batteríið og Sódóma sem allir eru við Tryggvagötu, skemmtistaðina Austur og Jacobsen í Austurstræti og Kaffi Zimsen við Hafnarstræti.

Skemmtistaðurinn Bakkus virðist hafa fyllt það skarð sem frægasti bar Íslands, Sirkus, skildi eftir sig. Margar helstu listaspírur borgarinnar sækja þennan stað og dreypa á pólskum vodka. Skemmti- og matsölustaðurinn Austur var einnig opnaður í sumar og er meðal annars í eigu fjölmiðlamannsins vinsæla, Ásgeirs Kolbeins, sem sést iðulega á staðnum um helgar. Jacobsen kom í stað skemmtistaðarins Rex og minnir stemningin þar nokkuð á stemninguna sem ríkti forðum daga á hinum goðsagnakennda stað Café Thomsen.

Plötusnúðurinn Kristján Jónsson, betur þekktur sem Kiddi Bigfoot, hefur verið skemmtanastjóri og plötusnúður í hartnær tuttugu ár. Hann segir að þessu beri að fagna. „Hér í gamla daga var allt næturlífið vestan við Lækjargötu, þá var það miðdepillinn, en svo þegar Tunglið brann og Astró fór þá færðist þessi miðdepill ofar. Það er ánægjulegt hvað það er komið mikið líf í miðbæinn, ég held að það sé mikill kostur að hafa staðina svolítið dreifða um bæinn. Nú er bara að bíða og sjá hvort þessir nýju staðir haldi vinsældum sínum,“ segir Kristján.

sara@frettabladid.is

Tónleikastaðurinn Sódóma Hingað sækir fólk ýmsa tónlistarviðburði og kastar af sér vatni á útrásarvíkinga.
Austur Skemmtistaðurinn var innréttaður af þeim Hrafnhildi Hólmgeirsdóttur og Jóni Atla Helgasyni og þykir sérstaklega smekklegur.


Kaffi ZImsen Skemmtistaðurinn býður upp á ódýran bjór og stutt er í næturnaslið því við hliðina eru tveir skyndibitastaðir.
Hefur séð þetta allt áður Plötusnúðurinn Kiddi Bigfoot fagnar því að vinsælir skemmtistaðir spretti aftur upp fyrir vestan læk. Hann segir það kost að hafa staðina dreifða um bæinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.