Innlent

Gunnar Birgisson: Fórnarlamb skipulagðra ofsókna

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

 

 

 

Undanfarnir dagar nálgast brjálæði í ofsóknum segir Gunnar Birgisson sem telur að Samfylkingin hafi skipulagt samsæri gegn sér. Hann ætlar að láta af embætti sem bæjarstjóri í Kópavogi en segir ósanngjarnt að hann sé dæmdur fyrir viðskipti bæjarins við fyrirtæki dóttur sinnar.

 

Framsóknarmenn í Kópavogi kröfðust þess að Gunnar Birgisson viki úr bæjarstjórastjólnum eftir að upplýsingar komu fram um viðskipti bæjarins við fyrirtækið Frjálsa miðlun sem er í eigu dóttur hans.

 

Gunnar fundaði með Ómari Stefánssyni, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna, í morgun. Niðurstaða þess fundar var sú að Gunnar hættir sem bæjarstjóri. Gunnar er með um 840 þúsund krónur á mánuði og fær því rúmar 5 milljónir í biðlaun.

 

Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi segir yfirlýsingar Gunnars í takt við málflutning bæjarstjóra þessa síðustu daga. Auðvitað séu engar ofsóknir hér á ferðinni enda hafi Samfylkingin frekar haldið sig til hlés í umræðunni undanfarna daga. Almenningi einfaldlega misbjóði vinnubrögð af þessu tagi og þess vegna hafi umræðan farið svona hátt.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×