Innlent

Grunaður um akstur undir áhrifum

Ökufanturinn Var stöðvaður við lögreglustöðina.
fréttablaðið/anton
Ökufanturinn Var stöðvaður við lögreglustöðina. fréttablaðið/anton

Ökufanturinn sem ók á fólksbíl og dyr slökkvistöðvarinnar í Skógarhlíð og reyndi að aka niður lögreglumenn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og áfengis við aksturinn. Maðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir fíkniefnaakstur.

Gerð verður krafa um gæsluvarðhald yfir manninum. Hann er grunaður um brot á lögum er varða við almannahættu, manndráp og líkamsmeiðingar og brot gegn valdstjórninni.

Maðurinn ók í gegnum nokkrar hurðir á slökkvistöðinni í Skógarhlíð og olli þar stórtjóni. Þaðan hélt hann að lögreglustöðinni við Hverfisgötu en þar var för hans stöðvuð. Hann hafði þá stórskemmt lögreglubíl sem hann ók á. Þá hafði hann gert tilraun til að keyra inn í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar við Skógarhlíð. Á stíminu um bæinn ók hann á fólksbíl, sem í voru tvær konur og ein stúlka.

Sjúkrabíll var notaður til þess að reyna að stöðva för hans með því að aka utan í hlið bílsins sem hann var á. Það tókst ekki.

Ekki er ljóst hvað manninum, sem er á fertugsaldri, gekk til en hann olli miklu tjóni og skapaði stórhættu með vítaverðum akstri. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×