Innlent

Meiri samfélagslegar skyldur

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
„Ég er alveg sammála því að það þarf miklu meiri samfélagslegar skyldur og ábyrgð á banka þótt þeir séu í einkaeigu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um ummæli Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra í Fréttablaðinu í gær.

Þar sagði Árni að velferðarsjónarmið eigi að ráða meiru um leikreglur fjármálamarkaðarins því velferðarkerfið þurfi að borga þegar kreppi að.

„Reyndin er sú að bankar eru ekkert einkavæddir heldur á ábyrgð samfélagsins. Þess vegna er rökrétt að samfélagið hafi meira um það að segja með hvaða hætti bankar eru reknir,“ segir Gylfi. „Hvort það er viðskiptaráðherra eða félagsmálaráðherra sem ákveður það skal ég ekki fullyrða um. Hins vegar ætti ríkisstjórnin í sameiningu að hafa skoðun á því með hvaða hætti bankakerfi á að vera rekið og sérstaklega að gera greinarmun á milli áhættusamra fjárfestinga og reglubundinnar viðskiptabankaþjónustu.“

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist ekki vita nákvæmlega hvað Árni Páll á við og segist ekki sjá að mikið sé að því hvernig lög eru samþykkt nú. „Það er þannig að allt þjóðfélagið ber mikinn kostnað af því þegar illa fer í atvinnulífinu. Menn hafa alltaf öll þessi sjónarmið í huga þegar lög eru samþykkt í þinginu, þá komast öll sjónarmið að.“ - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×