Lífið

Maríur seljast eins og heitar lummur

„Viðtökurnar voru strax mjög góðar og ég hef í raun aldrei haft undan að framleiða," segir Halla María Ólafsdóttir, textílkennari, sem framleiðir svokallaðar Maríur í stofunni heima hjá sér, en þær seljast eins og heitar lummur. Maríur er nælur, hárspennur, hárkambar og hárspangir sem Halla handsaumar.

Upphafið má rekja til þess þegar mágkona Höllu var á leið á árshátíð og langaði að hafa gullblóm í barminum. „Hún fann hvergi blóm í búðum eins og hana langaði í svo ég sagði henni að ég myndi bara föndra svoleiðis handa henni."

Hver og ein María er einstök

Í framhaldinu gerði Halla fleiri Maríur sem vöktu mikla lukku. „Síðan var næsta vetrarfrí í skólanum nýtt í framleiðslu sem seldist strax til áhugasamra samstarfsfélaga. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ekki stoppað síðan," segir Halla.

Maríur eru allar handsaumaðar sem gerir hverja og eina einstaka, að mati Höllu sem kveðst sanka að sér alls kyns efnum héðan og þaðan. Hún hafi meðal annars notað efni úr fatnaði sem hún sjálf og vinir og vandamenn hennar eru hættir að nota.

„Ég sauma Maríurnar í stofunni heima hjá mér sem er nú farin að líta meira út eins og saumastofa frekar en stofa. Títuprjónar, perlur, pallíettur, tvinnakefli og alls kyns efni taka orðið mikið pláss í litlu stofunni okkar," segir Halla.

Til heiðurs ömmu Maríu

Aðspurð segir Halla Maríurnar vera nefndar í höfuðið á ömmu hennar heitinni, Maríu Guðbjartsdóttur. Hún lést skömmu áður en Halla byrjaði í saumaskapnum.

„Ég komst yfir mikið af gömlum fallegum efnum, tölum og alls kyns efnivið sem mamma hafði haldið upp á frá ömmu Maríu. Ég er enn að nota eitthvað af þeim efnum en hef líka verið að kaupa inn í lagerinn. Þetta er því allt gert til heiðurs ömmu Maríu."

Spennur og nælur eftir Höllu eru seldar í Mýrinni í Kringlunni en kambar og spangir selur hún í gegnum Facebook síðu, sem er tileinkuð Maríum, heiman frá sér. Einnig hefur örlítið úrval af Maríum verið til sölu í Gallerí Sól í Grímsey.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.