Lífið

Kafloðnir kokkar þurfa að bíða enn um sinn

Skegg þeirra Úlfars og Tómasar er orðið nokkuð myndarlegt og mun halda áfram að vaxa þar til næsti stýrivaxtafundur verður haldin í nóvember. Már Guðmundsson er seðlabankastjóri.
Skegg þeirra Úlfars og Tómasar er orðið nokkuð myndarlegt og mun halda áfram að vaxa þar til næsti stýrivaxtafundur verður haldin í nóvember. Már Guðmundsson er seðlabankastjóri.
„Maður er bara farinn að æfa jólavísurnar og hvernig maður segir hó, hó, hó. Maður hlýtur að koma sterklega til greina sem jólasveinninn í ár,“ segir Úlfar Eysteinsson, matreiðslumeistari á Þremur Frökkum. Seðlabankinn ákvað í gær að lækka ekki stýrivexti og eru þeir því enn tólf prósent. Úlfar og Tómas Tómasson á Hamborgarabúllunni bundust fastmælum um að skerða ekki skegg sitt fyrr en stýrivextirnir væru komnir niður fyrir tíu prósent og þeir verða því að bíða fram í nóvember með það að raka sig.

Báðir eru þeir komnir með nokkuð myndarlegt skegg en Úlfar hefur ekki rakað sig á fimmta mánuð, frá því um miðjan júní. Þegar næsti stýrivaxtafundur Seðlabankans verður haldinn er liðið hálft ár frá því rakvélin fór síðast á loft. Eða hvað? „Tja, sko við gerðum með okkur samning um að við mættum raka í kringum hálsinn, skeggið var eiginlega bara að drepa okkur,“ segir Úlfar en bætir því við að skeggsamtök kokkanna ætli að halda þetta út. „Maður batt samt vonir við að þetta myndi gerast núna; forkólfar verkalýðs­hreyfingar­innar, atvinnulífsins og stjórnmálamenn voru farnir að gæla við eins stafs tölu þannig að þetta eru ákveðin vonbrigði,“ segir Úlfar, sem viðurkennir að þetta sé að verða svolítið erfitt. „Ég fékk mér ís með súkkulaði­sósu um daginn og ég þurfti að fara í bað á eftir.“

Ekki er þó loku skotið fyrir það að fleiri muni bætast í skeggsamtök kokkanna því Úlfar og Tómas hafa fengið töluverðan stuðning við þessu loðna framtaki sínu. „Menn úti á landi hafa tekið þetta upp hjá sér og hver veit, kannski munum við bara bjóða í hrefnukjöt í nóvember þegar næsti fundur er og setja smá pressu á seðlabankastjórann.“ - fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.