Lífið

Kaffibarsrottur keppa í fótbolta

Sigurvissir Helgi og Árni Einar standa í ströngu við að skipuleggja fótboltaleik milli eldri og yngri kynslóðar Kaffibarsdrengja.FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
Sigurvissir Helgi og Árni Einar standa í ströngu við að skipuleggja fótboltaleik milli eldri og yngri kynslóðar Kaffibarsdrengja.FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR

„Þetta eru allt strákar sem tengjast Kaffibarnum, annaðhvort sem starfsfólk eða fastakúnnar. Við yngri strákarnir skoruðum á þá eldri af því þeir eru búnir að vera með svo mikinn kjaft upp á síðkastið,“ segir Helgi Guðjónsson, starfsmaður Kaffibarsins, sem skipuleggur fótboltaleik þar sem eldri kynslóð Kaffibarsdrengja mætir þeirri yngri.

Leikurinn mun fara fram á Hlíðarenda á sunnudaginn næsta.

„Ég og nokkrir aðrir sáum um að velja í liðin. Menn sem spila í utandeildinni fá ekki að vera með og ekki heldur þeir sem eru í of góðu formi. Eftir leikinn verður grillað og menn fá afhentar keppnistreyjur og svo verður auðvitað bikarafhending.“

Aðspurður segir Helgi engar stelpur fá að vera með, enda hafi þetta aðeins verið á milli piltanna. „Það voru nokkrar stelpur sem vildu fá að vera með, en ég held að leikurinn verði bara of harður fyrir þær. Menn eru með svo rosalegt keppnisskap,“ segir Helgi, sem er sannfærður um sigur yngri Kaffibarsmanna. Á meðal þeirra sem munu taka þátt í leiknum eru Egill Tómasson tónlistarmaður, Árni Einar Birgisson plötusnúður, Halli Valli, söngvari Ælu, og Svanur Kristbergsson.

Þórhallur Sævarsson auglýsingaleikstjóri er einn þeirra sem keppir fyrir hönd eldri kynslóðar Kaffibarsmanna. Hann segist búast við hörðum leik en segir þá eldri vera nokkuð rólega fyrir leikinn. „Það er bæði aldurs- og þyngdarmunur á liðum, þannig ég held það verði auðvelt fyrir okkur að tækla þessa litlu peyja, maður verður búinn að lækka í þeim rostann í lok leiksins.

Annars held ég að flestir hlakki bara til að spreyta sig á vellinum, það er orðið svo langt síðan maður hefur sparkað í tuðru,“ segir Þórhallur að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.