Fótbolti

Dóra María: Alltaf að hugsa um Finnland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir í leik með Val síðastliðið sumar.
Dóra María Lárusdóttir í leik með Val síðastliðið sumar. Mynd/Stefán

Dóra María Lárusdóttir segist spennt fyrir leiknum gegn Hollandi í Kórnum á morgun en hann hefst klukkan 16.00.

„Mér líst vel á þennan leik. Ég veit þó ekki mikið um hollenska liðið og man reyndar ekki hvort ég hafi spilað gegn því áður," sagði hún við Vísi í dag. „En þetta verður án efa jafn og spennandi leikur."

Fjölmargir atvinnumenn eru nú í íslenska landsliðinu og fagnaði hún því tækifæri að fá landsliðshópinn allan saman nú. „Það er frábært að hitta alla aftur. Þetta er búið að vera öðruvísi þar sem við vorum alltaf saman öllum stundum en nú höfum við bara verið um tíu að æfa hér heima með landsliðinu."

Dóra María sagðist hafa íhugað það sjálf að fara í atvinnumennskuna í haust en ákvað að vera heima. Hún var þar að auki nýbúin með háskólanám í Bandaríkjunum.

„Ég velti því fyrir mér og átti í viðræðum við nokkur lið. En ég taldi það best fyrir mig að vera heima og ég sé alls ekki eftir því. Ég hef líka tekið eftir því að ég hef bætt minn leik," sagði Dóra María.

Hún segist einnig orðin spennt fyrir úrslitakeppni EM sem fer fram í Finnlandi nú í sumar. „Þetta er alltaf í hausnum á manni. Þetta er það sem drífur mann áfram á erfiðum æfingum - að fara til Finnlands."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×