Innlent

Leynileg sérréttindi ráðherra

Ríkið kaupir ótekið orlof af ráðherrum, en annað gildir um almenning. Formaður BSRB segir óeðlilegt að ráðherrar setji sérreglur um sjálfa sig.

Orlofsárið er frá fyrsta maí til þrítugasta apríl árið eftir. Nokkuð nákvæmlega er fjallað um þessi mál í lögum um orlof. Þar segir meðal annars í fjórðu grein: Orlofi skal alltaf lokið fyrir lok orlofsársins og enn fremur að framsal orlofslauna og flutningur milli orlofsára sé óheimill. Þetta er endurómað í reglum kjararáðs, en verkefni þess er meðal annars að ákveða laun ráðherra. Þegar kemur að orlofsmálum miðar ráðið við orlofslögin.

Í starfsreglum kjararáðs segir að óheimilt sé að láta greiðslu koma í stað launaðs árlegs orlofs, sem skuli að lágmarki vera 24 dagar. Með öðrum orðum, það ekki er hægt að selja sumarfríið. Menn geta þó fengið uppgjör við starfslok.

En á þetta nú við um alla? Það er ekki svo. Í reglum um ráðherraorlof, sem samþykktar voru í ríkisstjórn 9. júní 1992 er sérstakt ákvæði um þetta. Þar segir orðrétt. Tæmi ráðherra ekki orlofsrétt sinn fyrir 30. apríl ár hvert skal hann fá ótekna orlofsdaga greidda.

„Það er auðvitað afar óeðlilegt svo ekki sé meira sagt," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst þá hefur verið unnið samkvæmt þessum reglum æ síðan og er algengt að sumarfrí ráðherra sé greitt út að hluta.

Laun forsætisráðherra eru nú rúm 900 þúsund og laun annarra ráðherra ekki mikið lægri. Ætla má að nokkuð margar krónur hafi farið í að kaupa upp frí ráðherra í gegnum tíðina. Fréttastofa hefur sent forsætisráðuneytin fyrirspurn um málið.

Menn hafa ekki flaggað þessum reglum. Til að mynda finnst ekkert þegar leitað er á Alþingisvef, á vef stjórnarráðsins, í reglugerðarsafni, gagnasafni Morgunblaðsins, frá 1986, og heldur ekki í söfnum orðabókar háskólans meira að segja leitarmaskínan Google var rekin á gat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×