Erlent

Saka lögreglu í Mósambík um tilefnislaus dráp

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Óeirðalögregla í Mósambík að störfum eftir landsleik við Kenýa í Mapútó í september.
Óeirðalögregla í Mósambík að störfum eftir landsleik við Kenýa í Mapútó í september.

Mannréttindasamtök saka lögregluna í Mósambík um að drepa fólk af minnsta tilefni.

Lögregla í Suðaustur-Afríkuríkinu Mósambík er lítt við alþýðuskap að sögn mannréttindasamtakanna Amnesty International og segja samtökin lögreglu þar hafa orðið 46 manns að bana síðan árið 2006, oft af litlu sem engu tilefni. Fréttastofan greindi frá því í síðustu viku að lögregla í bænum Klipfontein View í Suður-Afríku hefði skotið þriggja ára gamlan dreng til bana þar sem hann átti að hafa rekið einhvers konar pípu út um bílglugga sem líktist byssuhlaupi. Lögregla þar í landi hefur þá stefnu að skjóta fyrst og spyrja svo og hafa 912 borgarar fallið í valinn af hennar völdum síðustu ár.

Amnesty International segja frá máli í Mósambík þar sem danskennarinn Augusto Cuivias var staddur á heimili sínu ásamt syni sínum, lífverði og sambýliskonu. Hann heyrði grunsamleg hljóð og hringdi í lögregluna sem kvaðst ekki hafa neinn bíl til umráða og því ekki komast á vettvang. Cuivias hringdi þá í fyrrverandi eiginkonu sína sem fór akandi á lögreglustöðina og náði í tvo lögreglumenn. Þegar þeir komu á heimili Cuivias hófu þeir skothríð formálalaust með þeim afleiðingum að Cuivias og lífvörðurinn létust báðir. Sambýliskonan slapp en missti fóstur.

Amnesty International segja enga rannsókn hafa farið fram og enginn verið dæmdur í fangelsi. Þetta sé dæmigert fyrir framgöngu lögreglunnar í Mósambík sem hafi sagt samtökunum að enga rannsókn þyrfti þar sem drápin hafi verið fullkomlega lögleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×