Innlent

Köstuðu bensínsprengjum á lögreglustöðina í Borgarnesi

MYND/Vilhelm

Fjórir ungir menn reyndu í nótt að kveikja í lögreglustöðinni í Borgarnesi. Þeir hentu bensínsprengjum að stöðinni eða svokölluðum mólótov-kokteilum. Að sögn lögreglu fór betur en á horfðist því önnur sprengjan sprakk ekki og hin brann upp án þess að eldurinn næði að læsa sig í húsið.

Grunurinn beindist strax að ungum mönnum sem höfðu fyrr um kvöldið mótmælt harðlega þegar félagi þeirra var handtekinn á dansleik í bænum. Sá hafði verið með ólæti og veifaði hafnaboltakylfu. Hann var handtekinn og færður til Reykjavíkur enda var hann eftirlýstur þar að sögn lögreglunnar í Borgarnesi.

Fjórmenningarnir voru því handteknir og færðir til yfirheyrslu og reyndist grunur lögreglu um aðild þeirra að málinu á rökum reistur. Þeir hafa játað að hafa staðið að árásinni og því verður ekki krafist gæsluvarðhalds yfir þeim. Mennirnir, sem eru á aldrinum frá 17 til tvítugs, voru flestir undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þeir gætu átt yfir höfði sér dóma enda brotið grafalvarlegt að sögn lögreglu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×