Innlent

Rannsakaði aðstoðar­menn ráðherra

Fjögur verkefni eftir fimm manns hlutu styrk, meðal annars eitt um mótorhjólaslys.
Fjögur verkefni eftir fimm manns hlutu styrk, meðal annars eitt um mótorhjólaslys.

Faglega ráðnum aðstoðarmönnum ráðherra tók að fjölga þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum árið 2007. Þetta er meðal niðurstaðna BA-verkefnis Gests Páls Reynissonar í stjórnmálafræði, sem hlaut á dögunum verkefnastyrk Félagsstofnunar stúdenta.

Þá segir í ritgerðinni að töluverður munur sé á bakgrunni aðstoðar-manna ef tekið er mið af stjórnmálaflokki ráðherra og virðist einnig sem flokkstengsl séu misjafnlega sterk eftir því um hvaða stjórnmálaflokk er að ræða.

Þrjú önnur verkefni hlutu styrk úr verkefnasjóðnum í gær. Eitt þeirra, eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur og Ragnheiði Erlu Eiríksdóttur, er á sviði hjúkrunarfræði og fjallar um tíðni og alvarleika mótorhjólaslysa á árunum 2003 til 2007. Í umsögn um verkefnið segir að það hafi mikla samfélagslega þýðingu og geti nýst yfirvöldum á sviði löggæslu, umferðarmála og heilbrigðismála og áhugafólki um mótorhjól.

Þá hlutu styrk Anna Hinriksdóttir fyrir meistaraverkefni í hagnýtri menningarmiðlun um dagbækur Bjarna Jónssonar úr Bólstaðarhlíðarhreppi og Sigríður Klara Böðvarsdóttir fyrir doktorsverkefni í líf- og læknavísindum um litninga í brjóstaæxlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×