Lífið

Þúsund manns á biðlista eftir Stieg Larsson

Guðrún segir að viðbrögðin við biðlistanum hafi komið sér skemmtilega á óvart.
Guðrún segir að viðbrögðin við biðlistanum hafi komið sér skemmtilega á óvart.

„Þetta kom okkur skemmtilega á óvart,“ segir Guðrún Vilmundardóttir hjá bókaforlaginu Bjarti.

Um eitt þúsund manns hafa skráð sig á biðlista hjá forlaginu eftir annarri bók Stiegs Larsson, Stúlkan sem lék sér að eldinum. Bókin verður gefin út á morgun en æstir aðdáendur geta fengið hana í hendurnar seinni partinn í dag áður en hún verður sett í plast.

„Það var meira til gamans gert að búa til biðlistann. Við áttum svo óþolinmóða vinkonu sem átti afmæli og óskaði eftir bókinni í afmælisgjöf. Við ætluðum að setja hana á biðlista. Síðan fór að rigna inn tölvupósti,“ segir Guðrún. Kvikmyndin sem var gerð eftir bókinni verður frumsýnd 2. október og vilja margir lesa bókina áður en þeir fara í bíó. „Það eru margir sem segja að þeir megi engan tíma missa því þeir ætli að vera búnir að lesa bókina,“ segir Guðrún. „Þótt myndirnar séu góðar þá kemur maður ekki sex hundruð síðna bók fyrir í tveggja tíma mynd.“

Hún hefur sjálf lesið Stúlkuna sem lék sér að eldinum og heillaðist af henni, rétt eins og fyrri bókinni, Karlar sem hata konur. „Mér finnst hún æðisleg. Hún Lisbeth er þungamiðjan í bókinni. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég naut þess út í ystu æsar að lesa bókina.“

Karlar sem hata konur hefur selst í um fimmtán þúsund eintökum hér á landi, sem er meira en nokkur þorði að vona. Til að anna eftirspurn verður Stúlkan sem lék sér að eldinum fyrst prentuð í sjö þúsund eintökum, sem er töluvert meira en síðast. Þriðja og síðasta bókin í Millennium-trílógíunni er svo væntanleg í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.