Innlent

Peningaverðlaun fyrir þá sem hjálpuðu við að finna fjórhjólin

Hér má sjá mynd af fjórhjólunum sem var stolið.
Hér má sjá mynd af fjórhjólunum sem var stolið.

Jakob Sigurðsson rekur fyrirtækið Fjórhjólaævintýri ásamt föður sínum og bróður. Fyrir helgi var fimm fjórhjólum stolið frá fyrirtækinu sem metin eru á rúmlega ellefu milljónir króna. Feðgarnir auglýstu þegar í stað eftir hjólunum sem nú eru komin í leitirnar en lögregla handtók sex aðila í tengslum við málið. Jakob segir feðgunum létt og þeir ætli að hafa samband við þá sem hjálpuðu við að upplýsa málið. Feðgarnir höfðu nefnilega lofað peningaverðlaunum fyrir vísbendingar sem hjálpuðu við leitina.

„Þetta er mikill léttir þó enn vanti töluvert af verðmætum en hjólin voru aðal málið," segir Jakob en strax og þeir auglýstu eftir hjólunum fóru þeim að berast ábendingar sem þeir síðan komu til lögreglu.

Það sem hinsvegar kom mönnum á sporið var þegar maður sem hafði leigt út flutningabíl kíkti inn og sá fjórhjólin. „Hann hafði leigt bílinn út og hélt að það væri búslóð í honum," segir Jakob en þrjú af hjólunum voru í bifreiðinni.

Í kjölfarið af því fundust síðan hin hjólin og mennirnir sex voru handteknir. Jakob segir þó að fyrirtækið hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem leigja þurfti auka hjól til þess að keyra hópa um helgina.

„Þetta hafði engin áhrif á reksturinn þannig séð, við stoppuðum aldrei og keyrðum alla helgina. Það var hinsvegar kostnaður við að leigja auka hjól til þess að bæta í flotann. Það þýðir ekkert að hætta," segir Jakob.

Feðgarnir keyra hópa um Reykjanesið á fjórhjólum og ætla að halda áfram á fullu.

„Við viljum koma þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu við leitina. Við munum hafa samband við þetta fólk útaf peningaverðlaununum sem við höfðum lofað, við svíkjum það ekkert."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×