Innlent

Arftaki Gunnars verður hugsanlega ekki bæjarfulltrúi

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Sjálfstæðismenn í Kópavogi eru farnir að leita út fyrir raðir bæjarfulltrúa til að finna nýjan bæjarstjóra í stað Gunnars Birgissonar.

Leitin að nýjum bæjarstjóra Kópavogs stendur enn undir forystu Gunnars Birgissonar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hittust síðast á fundi um hádegið á þriðjudaginn og áttu síðan fund með Ómari Stefánssyni bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins að honum loknum. Enn hefur þó ekki tekist að leysa það mál hver eigi að taka við af Gunnari Birgissyni og setjast í stól bæjarstjóra.

Eins og fram hefur komið í fréttum sækjast tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna eftir bæjarstjórastólnum, þeir Gunnsteinn Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson. Ekki virðist þó að nást pólitísk sátt um það að annar hvor þeirra taki við keflinu frá Gunnari og búist er við frekari fundarhöldum í dag eða á morgun.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Sjálfstæðismenn í Kópavogi séu farnir að leita út fyrir raðir bæjarfulltrúanna og hafi þegar viðrað bæjarstjórastöðuna við utanaðkomandi. Hugmyndin sé að fá faglegan bæjarstjóra sem verði framkvæmdastjóri bæjarins fram að næstu kosningum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er stefnt að því að leysa bæjarstjórakrísuna í Kópavogi um helgina enda hafa fulltrúaðráðsfundir verið boðaðir hjá bæði Framsókn og Sjálfstæðismönnum á mánudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×