Lífið

Bókmenntahátíð í Dölunum

Sagan á bak við sögurnar Skáldið Jón Kalman mun meðal annars segja gestum hátíðarinnar sögur frá æsku­árum sínum í Búðardal.mynd/einar falur
Sagan á bak við sögurnar Skáldið Jón Kalman mun meðal annars segja gestum hátíðarinnar sögur frá æsku­árum sínum í Búðardal.mynd/einar falur

Bókmenntahátíðin Sumarljós verður haldin í Leifsbúð í Búðardal á laugardag, þann 18. júlí. Hátíðin er tileinkuð skáldinu Jóni Kalman Stefánssyni, en Dalirnir hafa löngum verið sögusviðið í bókum hans og mun hann sjálfur koma og segja söguna á bak við söguna; hvers vegna Dalirnir séu honum svo hugleiknir.

Margrét Rún Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Leifsbúðar, segir þetta í fyrsta sinn sem slík hátíð er haldin í Búðardal. „Þetta byrjaði bara sem hugdetta. Ég tók að mér að sjá um rekstur Leifsbúðar í sumar og þegar Guðrún vinkona mín, sem vinnur hjá bókaútgáfunni Bjarti, heyrði af því þá datt henni í hug að halda hér bókmenntahátíð."

Margrét segir þær vinkonur renna eilítið blint í sjóinn með hátíðarhöldin þar sem þetta sé í fyrsta sinn sem þær taka annað eins verkefni að sér. Af skemmtiatriðum verður nóg því auk Jóns Kalmans mun götuleikhús Hins hússins vera með skemmtiatriði, harmóníkufélagið mun leika tónlist fyrir gesti og varðeldur verður kveiktur ef veður leyfir.

„Við höfum ekki hugmynd um hvað við gætum átt von á mörgum hingað um helgina en ég vona auðvitað að sem flestir láti sjá sig og þá sérstaklega heimamenn," segir Margrét Rún að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.