Innlent

Ungbarnapakkar til Hvíta-Rússlands

Hópur sjálfboðaliða fyllti þennan gám af hjálpargögnum í gær. Fréttablaðið/gva
Hópur sjálfboðaliða fyllti þennan gám af hjálpargögnum í gær. Fréttablaðið/gva
Starfsmenn Rauða krossins á Íslandi fylltu í gær gám af gjöfum sem ætlaðar eru hvít-rússneskum ungbörnum og öðrum sem búa við þröngan kost þar í landi.

Í ungbarnapökkunum, sem sjálfboðaliðar um allt land hafa útbúið undanfarnar vikur, eru sokkar, húfur, treflar og peysur sem sjálfboðaliðar hafa prjónað og fyrirséð er að gagnist vel í þeim fimbulkulda sem er í Hvíta-Rússlandi um vetur. Þá eru einnig í pökkunum samfestingar, bleyjur, handklæði og annað sem að gagni gæti komið.

Með í gámnum verða flísteppi og skór, sem dreifa á til munaðarleysingjahæla í landinu, og til barnmargra, fátækra fjölskyldna, einkum til sveita. Hluti af flísteppunum verður settur í vöruhús til dreifingar til þolenda hamfara af ýmsu tagi.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir að fjöldi fjölskyldna í Hvíta-Rússlandi búi í örbirgð, húshitunarkostnaður hafi hækkað verulega, laun lækkað og félagsleg vandamál aukist.

Gámurinn leggur af stað yfir hafið eftir helgi.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×