Innlent

Afbrotum fækkaði um þriðjung í Reykjavík

Samkvæmt bráðabirgðatölum fækkaði sérrefsilagabrotum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 30% á seinasta ári í samanburði við árið 2007. Á sama tímabili fækkaði umferðarlagabrotum um 15% en hegningarlagabrotum fjölgaði hinsvegar um 10%. Munar þar mestu um aukningu hnupl- og fjársvikamála. Þetta kemur fram í úttekt á afbrotum og verkefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2008.

Þegar hegningarlagabrot eru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að auðgunarbrotum fjölgaði verulega milli ára, einkum þjófnuðum. Innbrotum fjölgaði um 14% á milli ára og hnuplmálum um rúmlega 43 prósent.

Kynferðisbrotum fækkar árið 2008 eftir nokkra fjölgun árið áður. Hafa ber í huga að lög um kynferðisbrot tóku breytingum árið 2007 sem líklega hefur nokkuð um fjölgun tilkynninga það ár að segja.

Ofbeldisbrotum fækkar einnig milli ára, eða um 17 prósent, eftir nokkra fjölgun árið 2007.

Eignaspjöllum fækkar milli ára, mest er fækkunin í veggjakrotsmálum en einnig fækkar rúðubrotum nokkuð.

Þegar sérrefsilagabrot eru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að brotum gegn áfengislögum hefur fækkað um næstum helming milli ára, einkum vegna færri brota vegna ölvunar á almannafæri. Fíkniefnabrotum fækkar einnig verulega.

Nokkru meira var tekið af hassi árið 2008 en árið á undan, en um er að ræða svipað magn og árið 2006. Einnig var tekið meira af maríjúana, ecstasy og kókaíni árið 2008 samanborið við árið 2007 en minna af amfetamíni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×