Innlent

Amfetamínsmyglari fékk þrjú og hálft ár

Litla-Hraun Gunnar Viðar Árnason hefur setið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni frá því í maí.
Litla-Hraun Gunnar Viðar Árnason hefur setið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni frá því í maí.

Gunnar Viðar Árnason hefur verið dæmdur til að sæta þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa staðið að innflutningi á 6,1 kílói af amfetamíni 21. apríl. Efnið kom frá Hollandi með hraðsendingarfyrirtækinu UPS á Keflavíkurflugvelli og tók lögregla amfetamínið samdægurs. Það var í áldósum sem ætlaðar voru undir viðarolíu.

Gunnar Viðar lagði á ráðin um innflutninginn og var í samráði við aðila í Hollandi um tilhögun sendingar fíkniefnanna hingað til lands. Maður að nafni Roelof Knopper kom pakkanum í sendingu hjá UPS.

Daginn áður en sendingin var tekin bárust upplýsingar til lögregluyfirvalda hér að von væri á pakka með fíkniefnum til landsins. Jafnframt að hollenskur karlmaður hefði verið í sambandi við símanúmer hér á landi sem var óskráð. Þar hefði verið rætt um skipulag sendingarinnar. Var talið að notandi íslenska númersins væri Gunnar Viðar, en hann var í sambandi við símanúmer í eigu Hollendings að nafni Johns Dieliessen og fleiri.

Til að sanna notkun Gunnars Viðars á símanúmerinu var meðal annars aflað raddgreiningar hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI. Þá var unnin staðsetningargreining hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem sýndi að óskráði síminn var alltaf í notkun mjög nærri öðrum síma sem Gunnar Viðar kannaðist við að nota. Líkurnar á að það væri tilviljun væru 0,05 prósent.

Sjálfur sagðist hann fyrir dómi ekki vilja fullyrða að hann notaði óskráða símann nema þá til að „bulla í kellingum“. Varðandi milljónaupphæðir, nefndar í símtölum, kvaðst Gunnar Viðar hafa lent í illdeilum út af fasteignaviðskiptum og sér hefði verið hótað með „Munda morðingja“.

Í maí sáu lögreglumenn Gunnar Viðar hitta þrjá menn, alla útlendinga, í Smáralind, þar sem hann afhenti þeim þykkt umslag. Þeir eru grunaðir um þátt í stórfelldum fíkniefnabrotum.

Skömmu síðar var Gunnar Viðar handtekinn. Heima hjá honum fannst marijúana og 1,2 milljónir króna í peningum. Á vinnustað hans voru haldlagðar tæpar 700 þúsund krónur.

Því var haldið á lofti að símtöl milli Hollands og Íslands sem lutu að sendingunni og lögregluyfirvöld hleruðu snerust um að útvega til Hollands bíla á góðu verði til að selja með ágóða ytra.

Hvað varðar skýringar Gunnars Viðars á símtölum og fleiru segir dómurinn þær „fánýtan fyrirslátt og að engu hafandi“. Allt sé á sömu bókina lært og svör hans og skýringar „út í hött“. Hann eigi sér engar málsbætur.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×