Innlent

Forsendur kannaðar fyrir málsókn á hendur sökudólgum bankahrunsins

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Sérstakur starfshópur verður stofnaður á næstunni til þess að undirbúa hugsanleg skaðabótamál á hendur þeim sem sýnt þykir að valdið hafi ríki og almenningi fjárhagslegu tjóni með athöfnum sínum í bankahruninu og aðdraganda þess. Tillaga þessa efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var í morgun.

Steingrímur J. Sigfússon lagði fram minnisblað þessa efnis á fundinum í morgun en hugmyndir af þessu tagi hafa verið í skoðun hjá fjármálaráðuneytinu undanfarið. „Í fjármálaráðuneytinu hafa verið til skoðunar hugmyndir um hvort unnt muni að hefja og reka skaðabótamál á hendur þeim lögaðilum og einstaklingum, sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og almenningi í landinu fjárhagslegt tjón með athöfnum sínum í aðdraganda bankahrunsins og í því," segir í minnisblaðinu. „Slík mál, ef til kæmi, yrðu rekin sem einkamál og kröfur ríkisins í þeim einkaréttarlegs eðlis, þ.e. að ríkið fái bætur fyrir tjón sem það hefur orðið fyrir vegna verka annarra," segir einnig.

Þá er bent á að sönnunarkröfur í skaðabótamálum eru með öðrum hætti en í opinberum málum. „Ef fyrirliggjandi gögn sýna brotlega eða gáleysislega framgöngu tiltekinna einstaklinga eða lögaðila sem leitt hefur til tjóns fyrir íslenska ríkið er unnt að huga að skaðabótamálum án þess að afráða þurfi fyrst um refsinæmi háttseminnar."

Á minnisblaðinu kemur einnig fram að sönnunarkröfurnar í einkamáli séu vægari þó vissulega beri sá sönnunarbyrðina sem heldur fram skaðabótaskyldu annars gagnvart sér. Verkefni starfshópsins sem skipa á verður meðal annars að gera á því athugun í hvaða tilvikum líklegt er að hefja megi slík mál með árangri, skilgreina einstök mál og velja þau sem líklegt er að geti haft hraðan framgang og hafi fordæmisgildi.

„Þegar talið er að fyrir liggi með nægilega ljósum hætti tjónstilvik, tjón, sökunaut og tengsl atviks og framgöngu tjónvalds við tjón ríkisins væri hægt að hefjast handa með því að æskja kyrrsetningar á eignum viðkomandi tjónvalds, einstaklinga eða lögaðila og efna svo til málsóknarinnar í kjölfarið," segir einnig en að lokinni undirbúningsvinnunni verður ákveðið hvort og með hvaða hætti staðið yrði að málshöfðun og þá hvort hún yrði í höndum ríkislögmanns eða annarra.

Hópurinn sem skipaður verður fulltrúum úr forsætis- fjármála- dómsmála- og viðskiptaráðuneytis. Hópurinn getur einnig skipað tvo til þrjá lögfræðinga til að vinna að könnun og undirbúningi málshöfðunar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×