Innlent

Viðbúnaðarsamningur upp á 300 milljónir dala

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. Mynd/Anton Brink
Landsvirkjun og íslenska ríkið hafa nú gert með sér viðbúnaðarsamning sem tekur til aðstæðna sem kunna að skapast ef Landsvirkjun hefur ekki nægjanlegt fjármagn til að mæta vaxtagreiðslum eða afborgunum erlendra lána.

Samningurinn kveður á um að Seðlabankinn muni afhenda fyrirtækinu erlendan gjaldeyri og Landsvirkjun afhenda bankanum krónur eða skuldabréf í staðinn. Fjárhæð samningsins er að hámarki 300 milljónir Bandaríkjadala og rennur hann út 1. júlí 2011.

Þetta er gert til að bregðast við lækkandi lánshæfismati Landsvirkjunar, en fyrirtækinu hefur frá upphafi verið gefin sama lánshæfiseinkunn og íslenska ríkinu. Standard&Poor's settu lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar á athugunarlista 8. maí síðastliðinn og metur horfur neikvæðar.

Í rökstuðningi S&P er einkum lögð áhersla á að óvissa sé um hvort íslenska ríkið muni koma tímanlega til aðstoðar ef fyrirtækið lendir í fjárhagserfiðleikum. Til að bregðast við og draga úr áhyggjum erlendra aðila hafa Landsvirkjun og ríkið gert með sér ofangreindan viðbúnaðarsamning.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Í tilkynningunni er tekið fram að hverfandi líkur séu á að reyna muni á viðbúnaðarsamninginn, enda hafi Lansdvirkjun mikinn aðgang að lausafé í erlendri mynt sem ásamt fé úr rekstri dugi til greiðslu vaxta og afborgana út árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×