Innlent

VG enn stærsti flokkurinn - ríkisstjórnin sækir í sig veðrið

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup er Vinstri hreyfingin - Grænt framboð enn stærsti stjórnmálaflokkur landsins en í könnuninni fær hann 29 prósent atkvæða. Samfylkingin fær 28 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25 prósenta fylgi.

Framsóknarflokkurinn fengi 7,5 prósent atkvæða samkvæmt könnuninni og Frjálslyndi flokkurinn rekur lestina með tæplega fjögurra prósenta fylgi.

VG voru einnig stærsti flokkurinn í síðasta þjóðarpúlsi Gallup og í raun hefur dregið aðeins úr vinsældum flokksins eða um þrjú prósent. Sjálfstæðismenn bæta við sig fjórum prósentum og Samfylkingin dalar, en í síðustu könnun var flokkurinn með 31 prósents fylgi.

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur hins vegar aukist og mælist fylgi við hana nú 36 prósent sem er fjórum prósentum meira en í síðasta mánuði. Ríkisstjórnin á þó langt í land með að ná fyrri vinsældum sínum en á tímabili nálgaðist fylgið sjötíu prósent.

Frá niðurstöðum þjóðarpúlsins var greint í Ríkisútvarpinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×