Lífið

Heilbrigð skynsemi í hart við Rödd skynseminnar

Deilt um skynsemi
Jakob Þór Haraldsson telur sig eiga starfsheitið Heilbrigð skynsemi, hann sé því einnig rödd skynseminnar og af þeim sökum megi Iceland Express ekki nota slagorðið „rödd skynseminnar“ í auglýsingum sínum.
Deilt um skynsemi Jakob Þór Haraldsson telur sig eiga starfsheitið Heilbrigð skynsemi, hann sé því einnig rödd skynseminnar og af þeim sökum megi Iceland Express ekki nota slagorðið „rödd skynseminnar“ í auglýsingum sínum.

„Ég er búinn að vera „Heilbrigð skynsemi" í sex til tíu ár, hef skrifað undir því nafni á netinu. Og þar sem ég er Heilbrigð skynsemi hlýt ég líka að vera Rödd skynseminnar," segir markaðsfræðingurinn og bloggarinn Jakob Þór Haraldsson.

Hann er ákaflega ósáttur við nýja auglýsingaherferð flugfélagsins Iceland Express þar sem sjónvarpsmaðurinn Dr. Gunni predikar um rödd skynseminnar og telur þá vera að hafa af sér starfsheiti sem hann eigi.

„Ég meina, ég er ekki að borga helling af peningum til að verja þetta starfsheiti ef síðan eitthvert fyrirtæki getur notfært sér það," segir Jakob.

Jakob kveðst reka stjórnmálaráðgjöf og ferðaþjónustu undir nafninu Heilbrigð skynsemi. Og hann kynnir sig í símann sem: „Heilbrigð skynsemi, Jakob."

Jakob kveðst hafa sent Pálma Haraldssyni, eiganda Iceland Express, bréf og beðið þá um að hætta að nota þetta slagorð. En þeir hafi ekki orðið við því og nú verði hann því að leita til réttu aðilanna.

„Ég er bara að bíða eftir talsmanni neytenda, hann er í Bergen og ég ætla að fá hann til að skoða þetta með mér og athuga hvort það sé verið að brjóta á mínum rétti. Ég á hins vegar engan pening til að standa í einhverju lagastússi við svona stórfyrirtæki."

Jakob hefur vakið þó nokkra athygli fyrir skorinortar athugasemdir sínar á netinu í kjölfar bankahrunsins og þá helst hjá vinsælasta bloggara landsins, Agli Helgasyni.

„Egill er að mörgu leyti mjög góður, hann vaknaði bara til lífsins fjórum árum of seint eins og svo margir aðrir í þessu þjóðfélagi," segir Jakob og kemst á töluvert flug þegar talið berst að kreppunni.

„Ég bauð fram lausn árið 2008 og byrjaði að vara við bankahruninu 2004. En það vildi enginn hlusta á mig. Og nú er ég bara að flytja út til Noregs af því að ég nenni þessari vitleysu ekki lengur."

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Fíton sem gerir auglýsingarnar, staðfestir að þeir hafi fengið bréf frá Jakobi og þeir séu nú að skoða hvar þessi mál standa.

„Það er alveg ljóst í mínum huga að hann getur ekki átt einkarétt á heilbrigðri skynsemi, það er alltof almennt hugtak til þess að einhver eigi einkaleyfi á því. Þar að auki erum við ekki að tala um neina vöru eða fyrirtæki sem ber þetta heiti heldur er bara verið að ræða almennt um heilbrigða skynsemi í auglýsingunni," segir Ragnar en bætir því við að auðvitað verði þetta bara kannað til hlítar.

„Menn athuga hins vegar svona mál mjög gaumgæfilega áður en þeir fara í svona herferðir."

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.