Skoðun

Fyrirvara verður að setja

Eiríkur Bergmann skrifar

Einkum tvennt gerir vanda Icesave-samkomulagsins illviðráðanlegan; hvorki er hægt að samþykkja það né hafna því. Við höfnun segir Ísland sig úr lögum við alþjóðasamfélagið með hörmulegum afleiðingum en með því að samþykkja þann nauðasamning sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga er þjóðin í heild sinni lögð að veði langt inn í framtíðina. Og jafnvel þótt vísir menn séu flínkir með reikningsstokkinn sinn er enn með öllu óvíst hvernig okkur mun reiða af næstu árin og hvort við verðum yfir höfuð borgunarþjóð fyrir þessum ógnarskuldum. Þessi er togstreitan í málinu.

Verkefnið er vissulega snúið en nú reynir á stjórnvisku íslenskra ráðamanna. Við verðum nefnilega að finna þriðju leiðina út úr ógöngunum. Semsé einhverja aðra leið en tekist hefur að ná fram í samningum. Jafnvel blindum manni er núorðið ljóst að dómstólaleiðin er ófær, því ekki er til sá dómstóll sem Ísland getur vísað málinu til. En mögulega eru fleiri leiðir færar. Eins og málið er nú vaxið er þjóðþingið fullvaldur okkar í málinu og til að vernda þjóð sína frá óbærilegum skuldaklafa verður þingið að setja sinn eigin fyrirvara við samkomulagið.

Hið óljósa endurskoðunar­ákvæði sem nú er í samkomulaginu dugir ekki til, á því verður að hnykkja all rækilega, ekki aðeins til að auðvelda þjóðréttarlega réttlætingu fyrir því að taka málið upp á nýjan leik að nokkrum áðum liðnum heldur einnig til að skapa okkur betri samningsstöðu í framtíðinni.

Til að mynda getur þingið með einhliða yfirlýsingu lýst skilningi sínum á endurskoðunarákvæðinu, svo sem þeim að Ísland áskilji sér rétt til að endurmeta greiðslugetu landsins í samræmi við efnahagslega stöðu þjóðarbúsins þegar greiðslur eigi að hefjast eftir sjö ár og ljóst verði orðið hve langt eignir Landsbankans dugi upp í skuldirnar. Fyrirvarinn þarf enn fremur að verja okkur fyrir hugsanlegri málshöfðun erlendra kröfuhafa vegna neyðarlaganna, semsé að Icesave-samkomulagið falli úr gildi verði neyðarlögin dæmd ólögleg.

Með þessari leið vinnst tvennt í einu; Ísland kemst aftur í sam­félag þjóðanna en fyrirvarinn forðar okkur frá því að binda þjóðina í báða skó. Fari allt á versta veg geta íslensk stjórnvöld haldið því fram að fyrirvari þingsins meini þeim hærri greiðslur en þjóðarbúið ráði vel við. Þá verður það í höndum nýrra stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi að eiga við ný stjórnvöld á Íslandi í málinu. Verði Ísland komið inn í Evrópusambandið á þeim tíma verður þá einnig hægt að vísa málinu til Evrópudómstólsins, sem við höfum ekki möguleika á nú.

Sumir segja að of áhættusamt sé að setja slíkan einhliða fyrirvara því þá geti Bretar og Hollendingar rift samkomulaginu. Erfitt er um slíkt að spá, en það væri í það minnsta mun betri staða en að þingið okkar hafni samkomulaginu sem ríkisstjórnin hefur gert og afneiti þar með allri ábyrgð í málinu. Munum að þetta var alíslenskur banki, sem starfaði á íslenskum leyfum, samkvæmt íslenskum lögum og íslensku eftirliti sem dró allt þetta fé til sín frá breskum og hollenskum sparifjáreigendum. Við skulum allavega gera okkur ljósa grein fyrir því að þjóð sem segir sig úr lögum við nágranna sína verður að vera tilbúin að lifa útlagalífi. Fyrirvaraleiðin fer hins vegar bil beggja, við viðurkennum ábyrgð ríkisins en verndum þjóðina um leið. Satt að segja virðist þetta eina færa leiðin út úr vandanum.

Eigi að síður er ég ekkert svo ýkja bjartsýnn á að svona lausn muni ná fram að ganga, mögulega strandar hún á þrashefð Alþingis. Það getur nefnilega verið að þingmenn telji það ekki endilega henta sínum pólitísku hagsmunum að sameinast um viðlíka lausn. Stjórnarliðar vilja standa við þann samning sem stjórnvöld hafa þegar gert við Breta og Hollendinga en stjórnarandstaðan vill fyrir alla muni fella samninginn og koma þannig pólitísku höggi á ríkisstjórnina. Því getur farið svo að hefðbundin átök stjórnar og stjórnarandstöðu muni koma í veg fyrir að fyrirvaraleiðin verði farin, jafnvel þótt hún falli best að hagsmunum íslensku þjóðarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×