Lífið

Tugir kvenna rifja upp gamla takta í brennibolta

Brenniboltafélag Reykjavíkur Konurnar hittast einu sinni í viku og spila saman brennibolta.fréttablaðið/Anton
Brenniboltafélag Reykjavíkur Konurnar hittast einu sinni í viku og spila saman brennibolta.fréttablaðið/Anton

Heiðrún Ólafsdóttir er ein fjörutíu kvenna sem hittast vikulega og spila brennibolta. Keppnisskapið er mikið í konunum og hefur þurft að setja reglur svo allar hagi sér vel.

„Við erum á bilinu þrjátíu til fjörutíu konur sem hittumst vikulega og spilum brennibolta. Þetta átti að vera ákveðið andsvar við fótboltaleiki karlmanna, okkur langaði að gera eitthvað svipað, hittast, hreyfa okkur og hafa það skemmtilegt saman,“ segir Heiðrún Ólafsdóttir, meðlimur í Brenniboltafélagi Reykjavíkur sem var stofnað í vor.

Heiðrún segir að brennibolti sé skemmtileg íþrótt sem allir geta haft gaman af.

„Þetta er mjög dreifður hópur sem hittist og spilar. Dætur hafa tekið mæður sínar með á æfingar og öfugt, en við miðum við að leikmenn séu ekki yngri en átján ára því það getur gengið á ýmsu í leikjunum.“ Hún segir að mikill hiti sé í leikmönnum á meðan leikið sé og því hafi reynst nauðsynlegt að semja og skrá niður leikreglur.

„Mín ósk var að öll ágreiningsmál yrðu leyst í góðu en keppnisskapið er svo mikið að við höfum þurft að þróa leikreglur til að fara eftir. En þó að keppnisskapið sé mikið er alltaf stutt í gleðina,“ segir Heiðrún.

„Við höfum spilað vikulega á Miklatúni í sumar og á meðan veður helst gott og enn sæmilega bjart ætlum við að halda áfram að spila úti. Svo færum við okkur inn í sal í vetur.“

Brenniboltafélagið stendur nú í ströngu við að skipuleggja Íslandsmeistaramót í brennibolta sem fer fram 26. september. Mótið er sérstaklega ætlað konum og að sögn Heiðrúnar verður skipt í nokkur fimm manna lið sem leika hvert á móti öðru.

Hægt er að skrá sig á mótið með því að senda vefpóst á brennibolti@gmail.com. Skráningu lýkur í dag, 10. september. sara@frettabladid.is

Keppnisskap Mikill hiti er í leikmönnum á meðan á leik stendur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.