Innlent

Segir mjólkina hollari og kýrnar kátari

Kristján, Dóra og kátu kýrnar. Flestar kýrnar að Neðra-Hálsi fara út og inn úr fjósi eftir því sem þeim hentar og éta einungis gras. fréttablaðið/gva
Kristján, Dóra og kátu kýrnar. Flestar kýrnar að Neðra-Hálsi fara út og inn úr fjósi eftir því sem þeim hentar og éta einungis gras. fréttablaðið/gva

Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir áhuga bænda á lífrænum búskap og landnýtingu stigvaxandi en stjórnvöld fylgist illa með þeirri þróun og hafi enga stefnumörkun í þeim málum. Ísland er aftarlega á merinni í lífrænum búskap en hlutfall lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða er um fimmtán prósent í Austurríki og um tíu prósent í Svíþjóð en innan við eitt prósent hér á landi.

Hann segir að helstu iðnþjóðir séu nú í auknum mæli farnar að huga að matvælaöryggi sínu og Íslendingar verði að gera það einnig. Besta leiðin til þess sé að hlúa að starfsemi í lífrænum búskap því þar er nær einungis treyst á innlenda framleiðslu. „Við þurfum að fá stefnu frá stjórnvöldum og styrk fyrir þá sem vilja laga sinn búskap að þessu og þá held ég að við fáum þá aura margfalt til baka," segir Ólafur.

„Það er vaxandi eftirspurn eftir þessum vörum," útskýrir Ólafur. „Svo í seinni tíð hefur verið gríðarleg verðhækkun á aðföngum fyrir bændur eins og áburði og eiturefnum og ýmsu en í lífrænum búskap er þessi kostnaður alveg í lágmarki þar sem bóndinn er að mestu óháður aðföngum."

Kristján Oddsson og kona hans, Dóra Ruf, að Neðra-Hálsi í Kjós, hafa stundað lífrænan búskap frá árinu 1987 og reka þau einnig fyrirtækið BioBú sem framleiðir jógúrt og fleira úr lífrænum afurðum. Hann er með fjörutíu mjólkandi kýr og fara flestar þeirra út og inn úr fjósinu eftir því sem þær kjósa. Hann ber mykju á tún en engan áburð og kýrnar eru einungis aldar á grasi. „Þær mjólka minna en mjólkin er hollari og heilsa kúnna sjálfra er betri, ég myndi segja að heilsufarsvandamál hér væri hverfandi," segir Kristján. „Enda fara þær um skellihlæjandi," segir hann kankvís. Hann segir einnig að vissulega taki það tíma og fjármagn að breyta yfir í lífrænan búskap en þegar hann er kominn af stað séu bændur nær óháðir gengi og vöxtum. „Þá ertu á grænni grein meðan grasið grær," segir hann og brosir við.

Einn þeirra sem undirbýr bú með lífrænum búskap er Pétur Jónsson á Þúfukoti, einnig í Kjós. „Ég er með verktakafyrirtæki og það er allt frosið í þeim geira svo ég ákvað að vinda mér í þetta," segir hann. Hann hefur fengið jörðina vottaða fyrir lífrænan búskap og hyggst reisa þar fjárhús, hænsnabú og sláturhús sem öll verða vottuð fyrir lífrænan búskap. „Ég held að það séu tækifæri í þessu," segir Pétur.

jse@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×