Innlent

Útiveran víkkar sjóndeildarhringinn

Í byrjun júní var eins konar lokaæfing fyrir stofnun Ferðafélags barnanna þegar leikskólabörn spókuðu sig í hlíðum Esjunnar. Formlegur stofnfundur verður við rætur fjallsins klukkan hálftvö á mánudaginn.
Fréttablaðið/Vilhelm
Í byrjun júní var eins konar lokaæfing fyrir stofnun Ferðafélags barnanna þegar leikskólabörn spókuðu sig í hlíðum Esjunnar. Formlegur stofnfundur verður við rætur fjallsins klukkan hálftvö á mánudaginn. Fréttablaðið/Vilhelm

„Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigði og virkni allra barna og fjölskyldna og með stofnun þessa nýja félags leggur Ferðafélag Íslands sitt lóð á vogarskálarnar,“ segir í tilkynningu frá Ferðafélagi Íslands sem stofnar Ferðafélag barnanna við rætur Esju í dag.

„Með þessu nýja félagi verður lögð mikil áhersla á að bjóða upp á ferðir og uppákomur á forsendum barnanna með það fyrir augum að víkka sjóndeildarhring þeirra og upplýsa um heilbrigða lífshætti úti í náttúrunni. Í þessu samhengi má segja að höfuðmarkmið Ferðafélags barnanna sé að fá öll börn til að upplifa sanna gleði í náttúrunni og upplifa sjálf leyndardóma umhverfisins,“ segir í tilkynningu Ferðafélagsins.

Fram kemur að ferðirnar verði sniðnar að þörfum barna upp að tólf ára.

„Þau geta lagt á sig talsverðar göngur – ef hugsað er vel um grunnþættina; aldrei svöng, aldrei kalt og aldrei leið,“ segir til dæmis um miðhópinn. Um elstu krakkana segir að þau séu að öðlast meira sjálfstæði og vilji láta reyna á eigin getu: „Foreldrar eru þó með að sjálfsögðu, en kannski ekki eins virkir þar sem félagarnir eru á þessum aldri að ná æ meiri athygli.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×