Erlent

Dregur úr stuðningi við hernaðinn í Afganistan

Líkin borin heim Hernaðurinn í Afganistan hefur til þessa kostað meira en 800 Bandaríkjamenn lífið.
nordicphotos/AFP
Líkin borin heim Hernaðurinn í Afganistan hefur til þessa kostað meira en 800 Bandaríkjamenn lífið. nordicphotos/AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti kallaði í gær á sinn fund helstu ráðgjafa sína í öryggismálum til að ræða framhald hernaðar­ins í Afganistan. Átta ár voru í gær liðin frá því að bandarískir og breskir hermenn réðust inn í Afganistan.

Obama lýsti því yfir fyrr á árinu að fjölgað yrði verulega í herliði Bandaríkjanna í Afganistan, nú þegar dregið væri úr viðbúnaði bandaríska hersins í Írak. Undanfarið hefur hann þó dregið í land með það, en segir nú að í það minnsta verði ekki fækkað í herliðinu.

Á þriðjudaginn áttu leiðtogar bæði repúblik­ana og demókrata á Bandaríkjaþingi níutíu mínútna fund með Obama um Afganistan. Sá fundur virðist ekki hafa breytt neinu um afstöðu flokkanna, því repúblikanar halda áfram að hvetja Obama til þess að fara að ráðum hershöfðingja sinna, en demókratar segja hann ekki þurfa að flana að neinu.

Obama hefur þó þegar sent rúmlega tuttugu þúsund hermenn til Afganistans á árinu, til viðbótar við þau 38 þúsund sem fyrir voru.

Bandaríkjamenn eru smám saman að komast á þá skoðun, að hernaðurinn í Afganistan sé ekki til góðs. Nú er svo komið að einungis 40 prósent styðja hernaðinn þar, en í júlí síðastliðnum voru 44 prósent fylgjandi. Átta ára hernaður í Afganistan hefur kostað rúmlega 800 bandaríska hermenn lífið.

Í Bretlandi er ekki heldur mikil stemning fyrir stríðsrekstri í Afganistan. Meira en helmingur Breta er andvígur því að breski herinn sé þar að athafna sig, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Talibanar segja hins vegar að Vestur­löndum stafi engin hætta af þeim, þótt þeir muni áfram berjast gegn erlendu hernámsliði.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×