Lífið

Bretar bítast um Íslandsmynd

jóhann sigþórsson Nýjasta mynd hans verður líklega tekin til sýningar hjá National Geographic.
jóhann sigþórsson Nýjasta mynd hans verður líklega tekin til sýningar hjá National Geographic.

„Þetta er alveg meiri háttar," segir leikstjórinn Jóhann Sigþórsson. Tvö bresk fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að kaupa dreifingarréttinn á nýrri íslenskri heimildarmynd hans, Living on the Edge.

Myndin verður kynnt á sjónvarpssöluhátíð í Cannes á næstunni þar sem dreifingaraðilarnir munu bítast um hana. Einnig eru miklar líkur á því að sjónvarpsstöðin National Geographic kaupi hana til sýningar.

„Þetta er ágætis peningur því þetta verður selt um allt. Þetta er íslenska tilraunin til að gera eitthvað Planet Earth-efni," segir Jóhann en Profilm sér um framleiðsluna.

Ætlunin er að myndin, sem er 52 mínútna löng, sýni sálina í íslensku þjóðinni. Enginn viðtöl eru í henni heldur fjallar sögumaður um það sem fyrir augu ber. Um tónlistina sér Hilmar Örn Hilmarsson. „Við höfum kallað þetta í gríni fyrsta skrefið til endurreisnar Íslands. Þetta er mjög pósitíf mynd fyrir Ísland og það er ekki minnst á bankahrunið eða neitt í þeim dúr," segir Jóhann.

„Þarna eru náttúrulífsmyndir og heilmikið kíkt á mannlífið líka."

Jóhann segir að kreppan hafi ýtt undir gerð myndarinnar þó svo að hún hafi verið í mörg ár í undirbúningi. „Ég hef verið að safna efni í hana í fjögur ár. Þegar hrunið kom fannst mér tilvalið að kýla á þetta og ég myndaði það síðasta í febrúar."

Jóhann er margreyndur leikstjóri heimildarmynda og hefur gert myndir fyrir stöðvar á borð við Discovery, Animal Planet, TV2 og Danmarks Radio. Á meðal íslenskra heimildarmynda hans er Fæddur í paradís sem var ádeilumynd á virkjanaframkvæmdir þar sem rithöfundurinn Guðmundur Páll Ólafsson var í forgrunninum. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.