Innlent

Í hundrað á fjórum sekúndum

Teitur Þorkelsson hjá Framtíðarorku og Gísli Gíslason hjá fyrirtækinu 2012, eiganda Tesla. Fréttablaðið/anton
Teitur Þorkelsson hjá Framtíðarorku og Gísli Gíslason hjá fyrirtækinu 2012, eiganda Tesla. Fréttablaðið/anton

„Þessi bíll ætti að útrýma hugmyndinni um sænska líffræðinginn við stýrið á litlum, kraftlausum og hallærislegum bíl,“ segir Teitur Þorkelsson hjá ráðgjafafyrirtækinu Framtíðarorku, um rafmagnssportbílinn Tesla.

Bíllinn verður til sýnis og reynsluaksturs fyrir gesti ráðstefnunnar Driving Sustainability sem hefst á Hilton í dag. Hann nær hundrað kílómetra hraða á innan við fjórum sekúndum og gengur eingöngu fyrir rafmagni.

Um 200 manns sækja ráðstefnuna, meðal annarra sérfræðingar frá stærstu bílaframleiðendum heims, orkufyrirtækjum og háskólum. Forystuhlutverk Norðurlanda og möguleikar Íslands í nýjum orkulausnum í samgöngum verða í brennidepli.

Fyrirtækið Framtíðarorka, sem sérhæfir sig í miðlun þekkingar á möguleikum í notkun hreinnar orku í samgöngum, hefur veg og vanda af ráðstefnunni, sem Norræna ráðherranefndin og Reykjavíkur­borg styrkja. „Í ljósi þess að hægt er að spara milljarð króna á mánuði í gjaldeyri með því að nota innlenda orku á bílana á þetta efni betur við en nokkru sinni,“ segir Teitur og vísar þar til þess að Íslendingar kaupa eldsneyti fyrir 12,7 milljarða króna á ári.- hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×