Erlent

Leyndarskjalavörður les Vatíkaninu pistilinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Grafhýsi Galíleós í Santa Croce-basilíkunni í Flórens á Ítalíu.
Grafhýsi Galíleós í Santa Croce-basilíkunni í Flórens á Ítalíu. MYND/Reuters

Vatíkanið ætti að læra af þeim mistökum sem það gerði gagnvart Galíleó Galílei og hætta að óttast framfarir í vísindum, segir skjalavörður Vatíkansins.

Það er ekki á hverjum degi sem gagnrýnisraddir um Vatíkanið heyrast frá því sjálfu. Nú hefur þó Monsignor Sergio Pagano, leyndarskjalavörður Vatíkansins, stigið fram og hvatt til þess að kaþólska kirkjan hætti þessu tuði og fari að líta á framfarir í vísindum og tækni sem eðlilegan og æskilegan hlut.

Pagano sagði þetta reyndar ekki orðrétt en það var þó klárlega inntakið í málflutningi hans á blaðamannafundi á fimmtudaginn þar sem hann kynnti ýmis skjöl um málið gegn stjörnufræðingnum Galíleó sem ekki höfðu komið fram áður. Rannsóknardómstóll dæmdi Galíleó í stofufangelsi árið 1616 eftir árekstur hans við kaþólsku kirkjuna þegar hann lýsti yfir stuðningi við sólmiðjukenningu Kópernikusar sem kirkjan taldi engan veginn standast miðað við lýsingu biblíunnar á alheiminum.

Pagano ræddi um hlutina í víðara samhengi og nefndi til sögunnar stofnfrumurannsóknir og aðrar athafnir nútímavísinda sem kirkjan mætti ekki fordæma sjálfkrafa. Varaði hann eindregið við því að kirkjan endurtæki þau mistök sem hún gerði í máli Galíleós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×