Innlent

Kona og ungt barn komust út

Reykur Talsverður reykur gaus upp þegar rúður í eldhúsinu, þar sem eldurinn kom upp, sprungu.
Reykur Talsverður reykur gaus upp þegar rúður í eldhúsinu, þar sem eldurinn kom upp, sprungu. Mynd/Auðunn Níelsson
Engan sakaði þegar eldur varð laus í gömlu timburhúsi á Akureyri um miðjan dag í gær. Nágrannar urðu eldsins varir og hringdu á Neyðar­línuna. Kona með ungt barn var í húsinu þegar eldurinn kom upp, en hún kom sér út eftir að nágrannar létu hana vita.

Eldurinn kviknaði í eldhúsi í einni af fjórum íbúðum í þessu ríflega 100 ára gamla timburhúsi, segir Ingimar Eydal, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar.

Þegar slökkviliðið kom á vettvang um klukkan 15 var farið að rjúka úr húsinu, og þegar slökkviliðsmenn reyndu að finna eld sprungu rúður í eldhúsinu út á móti þeim og mikill reykur gaus upp, segir Ingimar.

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, en talsverðan tíma tók að slökkva allar glóðir, enda húsið einangrað með torfi. Önnur hús voru ekki talin í hættu. Íbúðin sem eldurinn kviknaði í er talin ónýt, og talsverðar reykskemmdir urðu í öðrum íbúðum í húsinu.

Eldsupptök eru ókunn, en grunur beinist að rafmagni, segir Ingimar. Ekkert bendir til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.- bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×