Lífið

Fjölskyldan frumsýnd í kvöld

Átakaatriði úr Fjölskyldunni: Hvað misbýður kvenleggnum í fjölskyldunni svo? Margrét Helga, Nína Dögg, Jóhanna Vigdís og Ellert.Mynd/Grímur/LR
Átakaatriði úr Fjölskyldunni: Hvað misbýður kvenleggnum í fjölskyldunni svo? Margrét Helga, Nína Dögg, Jóhanna Vigdís og Ellert.Mynd/Grímur/LR

Í kvöld frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsi nýlegt bandarískt leikverk, Ágúst í Osages-sýslu eftir Tracy Letts, sem í sviðsetningu Hilmis Snæs Guðnasonar er kallað Fjölskyldan.

Letts fetar í verkinu í spor eldri bandarískra höfunda og gerir stórfjölskylduna að yrkisefni rétt eins og Miller, Shepard og fleiri öndvegishöfundar vestanhafs gerðu á liðinni öld. Leikritið er fjölskyldusaga Weston-fjölskyldunnar, sem kemur saman þegar faðirinn hverfur. Þegar afkomendur og makar koma saman kynnumst við hinu flókna fyrirbæri fjölskyldunni á okkar tímum. Verkið er sett upp í húsi á þremur hæðum og vísar þannig beint í verk á borð við Sölumaður deyr eftir Miller. Börkur Jónsson gerir leikmynd. Þrettán leikarar taka þátt í verkinu.

Tónlistarmaðurinn KK hefur samið tónlist við verkið en hann starfaði síðast hjá LR í Þrúgum reiðinnar. Tracy Letts (1965) settist á fremsta bekk bandarískra leikskálda með verkinu. Fjölskyldan hlaut þrenn eftirsóttustu leiklistarverðlaun Bandaríkjamanna: Drama Desk, Pulitzer og loks Tony-verðlaunin sem besta leikrit ársins 2008. Þýðandi er Sigurður Hróarsson, búninga gerir Margrét Einarsdóttir og lýsing er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar. Leikarar í sýningunni eru Sigrún Edda Björnsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Pétur Einarsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Theodór Júlíusson, Hallgrímur Ólafsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Ellert A. Ingimundarson og Rúnar Freyr Gíslason. pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.