Innlent

Skylt að aka Sólheimafólkinu

Maður sem býr á Sólheimum og getur ekki ferðast einn síns liðs á rétt á akstursþjónustu frá sveitar­félaga
Maður sem býr á Sólheimum og getur ekki ferðast einn síns liðs á rétt á akstursþjónustu frá sveitar­félaga

Samgönguráðuneytið, sem fer með málefni sveitarfélaga, hefur ógilt ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að synja þroskaheftum manni um ferðaþjónustu.

Maðurinn, sem býr á Sólheimum í Grímsnesi, sótti í apríl og ágúst í fyrra um að verða ekið til læknis í Laugarási og til Selfoss í einkaerindum. Þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi reglur um að sótt sé um slíkt þrisvar á ári fyrir stutt tímabil í einu barst ekki svar fyrr en í nóvember. Ósk mannsins var þá synjað og var sú ákvörðun kærð fyrir hans hönd.

Sveitarstjórnin sagði Sólheima þegar fá greitt fyrir slíkan akstur með samningi við félagsmálaráðuneytið. Samt sem áður veitti sveitarfélagið skjólstæðingum Sólheima almennan akstur í Laugarás vegna læknisferða og skólaakstur á Selfoss. Þannig væri veitt þjónusta umfram skyldu sveitarfélagsins. Þeir einu sem nýttu þjónustuna væru skjólstæðingar Sólheima.

Í úrskurði samgönguráðuneytisins segir að sveitarfélagið losni ekki undan lögbundinni skyldu sinni þótt Sólheimar hafi gert þjónustusamning við ríkið. Umræddur maður sé ekki vistmaður á Sólheimum heldur búi þar og sé með lögheimili. Þetta hafi félagsmálaráðuneytið einmitt áður bent sveitarstjórninni á. Sveitarstjórnin er átalin fyrir seinagang í afgreiðslu málsins og synjun hennar ógilt eins og fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×