Innlent

„Við erum ekki einu sinni reiðir lengur, við erum bara orðnir þreyttir“

Valur Grettisson skrifar
Snorri Magnússon formaður landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon formaður landssambands lögreglumanna.

„Niðurskurðurinn eru 51,1 milljón og því verður ekki náð nema með stórfelldum niðurskurði á yfirvinnu og með því að segja starfsfólki upp," segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna en Vísir sagði frá áhyggjufullum lögreglumanni í morgun sem sendi fréttastofu bréf þar sem hann lýsti erfiðu starfsumhverfi lögreglumanna.

 

Snorri segir starfsumhverfi lögreglumanna vera orðið slæmt. Spurður hvort hann kannist við að ekki séu til DVD-diskar til þess að taka upp myndskeið í gegnum svokallaðan Eye-witness búnað segist hann hafa heyrt af því.

Þá segir ennfremur í bréfinu að lögreglumennirnir væru áhyggjufullir yfir því að vera einir í bíl þegar kemur að útköllum. Snorri segist skilja þessar áhyggjur enda aldrei hægt að vita hvernig sakleysislegustu útköll geti þróast. Snorri segir það óásættanlegt að lögreglumenn séu sendir einir á vettvang.

Þá kom einnig fram í bréfinu að lögreglubifreið hefði bilað við eftirför á sunnudagskvöldið þar sem bíll endaði út í skurði í Hvalfirði eftir að honum var þröngvað þangað af lögreglubifreið. Þar að auki var fullyrt að bíllinn hefði gert það oft.

Snorri segist ekki kannast við það en tekur fram að niðurskurður bitni jafnt á tækjum og ástandi ökutækja sem og fólki.

„Það er niðurskurður á öllum sviðum. Þetta á líka við ríkislögreglustjóra sem rekur bílana," segir Snorri.

Spurður hvort almenningur megi búast við fullri þjónustu þrátt fyrir niðurskurð segir Snorri það af og frá.

„Þeir geta alls ekki tryggt fulla þjónustu með þessu áframhaldi og hvað þá eftir þann niðurskurð sem er boðaður," segir Snorri. Hann áréttar að Landsamaband lögreglumanna geri sér fulla grein fyrir því að nú séu niðurskurðartímar.

„Það eru erfiðir tímar. En vandinn er sá að við höfum verið að skera niður í fjöldamörg ár," segir Snorri og bendir á að þrátt fyrir uppgangstíma fyrir kreppu þá hafi framlag til lögreglunnar alltaf haldið sinni krónutölu. Á meðan breyttist verðlag og verðþróun og aldrei fékk embættið meira að hans sögn. Hann segir það ekkert annað en niðurskurð.

Spurður hvað sé til ráða segir Snorri a það þurfi augljóslega að auka framlög til lögreglunnar. Hann segir að það megi vera að það virðist vera bjartsýnt á tímum þar sem ríkissjóður er jafn skuldsettur og raun ber vitni. Hann segir að þá sé best að láta embættið í friði.

„Það er búið að skera fituna og vöðvana í burtu. Það er ekkert eftir nema beinagrindin," segir Snorri.

Mikið álag hefur verið á lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega á meðan búsáhaldabyltingin stóð sem hæst.

Snorri segir að það hafi verið súrt að taka á sig reiði almennings á meðan lögreglumenn séu að upplifa það sama enda fyrirséð að uppsagnir verða að veruleika um áramótin.

Hann segir að nú séu víðsjáverðir tímar og margar erlendar rannsóknir sýni fram á að það sé beinlínis glapræði að hrófla við löggæslunni á slíkum tímum.

Og lögreglumenn eru orðnir langþreyttir að sögn Snorra.

„Við erum ekki einu sinni reiðir lengur, við erum bara orðnir þreyttir," segir hann um starfsumhverfi lögreglumanna eins og það er í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×