Innlent

Talið að svínin hafi smitast af starfsfólki

Grunur leikur á að svínaflensa sé komin upp á einu stærsta svínabúi landsins. Dýrin eru talin hafa smitast af starfsfólki á búinu.

Bústjórinn á Svínabúinu að Minni Vatnsleysi á Suðurnesjum varð var við óeðlilegt lystarleysi meðal dýranna og grunur kviknaði um að dýrin hefðu smitast af svínaflensu. Búið er meðal þriggja stærstu svínabúa landsins þar eru um 4000 dýr en aðeins fáein þeirra eru með sýnileg einkenni.

Tveir starfsmenn á svínabúinu veiktust af svínaflensu í síðustu viku og er talið hugsanlegt að dýrin hafi smitast af mönnunum.

Starfsmenn svínabúa og dýralæknar voru í forgangshópi eitt þegar kom að bólusetningu gagnvart svínaflensu en af einhverjum ástæðum fengu starfsmennirnir ekki bólusetningu hjá heilsugæslu Hafnarfjarðar, þrátt fyrir að gæðastjóri búsins hefði farið fram á slíkt.

Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir Gullbringu - og Kjósarumdæmis sagði í samtali við fréttastofu að allur flutningur á dýrum og afurðum frá búin hafi verið stöðvaður og tryggt sé að ekkert kjöt af sýktum dýrum fari til manneldis. Ennfremur sagði hann að ekki sé hætta á því að fólk smitist af svínaflensu við það að leggja sér sýkt kjöt til munns.

Sýni voru tekin úr dýrunum á Minni - Vatnsleysu í morgun og eru nú til rannsóknar að Keldum. Niðurstöður þeirra rannsókna eiga að liggja fyrir á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×