Lífið

Hjaltalín í jólaplötuflóðinu

Handahófskennd tívolístemning. Högni Egilsson á sviði með Hjaltalín.
Handahófskennd tívolístemning. Högni Egilsson á sviði með Hjaltalín.

„Við tökum þátt í flóðinu og komum með nýju plötuna okkar í nóvember,“ segir Högni Egilsson, aðalsprauta hljómsveitarinnar Hjaltalín. Eitthvað var á huldu hvort sveitin myndi fylgja plötunni Sleepdrunk Seasons eftir í ár, en sú plata kom út í desember 2007 og vakti mikla athygli á þessari fjölmennu gæðasveit.

Í fyrra kom svo „Þú komst við hjartað á mér“ Hjaltalín endanlega á kortið og því má gera því skóna að mikil spenna sé fyrir nýju plötunni. Hún er nafnlaus enn sem komið er, en lögin „Suitcase Man“ og „Stay by You“ hafa þegar heyrst af henni. „Suitcase Man verður í gjörbreyttri útgáfu á plötunni, talsvert stærri útgáfu,“ segir Högni. „Ég get sagt um þessa plötu að hún fer í margar áttir og er mjög fjölbreytt. Það er allt látið flakka og það er handahófskennd tívolístemning á henni. Það er samt eitthvert bindiefni sem heldur öllu saman.“

Högni segir að vinkona bandsins úr listaháskólanum, Regína María, sé að vinna umslagið í þessum töluðu orðum og styttist í að platan verði tilbúin:

„Við erum bara að ljúka upptökum núna. Svo förum við í smá túr en Kiddi og Siggi (úr Hjálmum) klára mixin í Hljóðrita á meðan. Þegar við komum heim ætti platan að vera svo til tilbúin.“

Hjaltalín hefur spilað víða í Evrópu síðustu misserin. Túrinn sem bandið fer á nú í vikunni samanstendur af sex tónleikum í Þýskalandi og einum á festivali í Búdapest þar sem íslenska hljómsveitin Ourlives kemur líka fram, auk Emilíönu Torrini og Lay Low.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.